Tuesday, February 3, 2015

Ungbarnasamfella úr Kambgarni

Fyrir nokkrum árum prjónaði ég þessa fínu samfellu á eldri dóttur mína sem þá var tæplega ársgömul. Ég setti uppskriftina saman úr mismunandi hugmyndum sem ýmist áttu sér uppsprettu í kollinum á mér eða prjónablöðum.


Ég notaði Kambgarn í hana sem voru ábyggilega verstu mistökin því hún eyðilagðist í þvotti rétt eftir að ég kláraði hana. Ég man ekki lengur hvort það var mér eða manninum mínum að kenna en notum hann sem sökudólg ;)

Ekki misskilja samt, ég elska Kambgarn og nota aftur og aftur. Ég veit bara að næst þarf að passa extra vel að þvo varlega í höndunum.

En með samfelluna þá er ég oft spurð hvort ég eigi uppskriftina eða sé til í að skrifa hana upp. Hingað til hef ég eitthvað verið að draga lappirnar með það. Örugglega mest vegna þess hversu fúl ég var þegar samfellan eyðilagðist. En ég ákvað svo skyndilega að demba mér bara í það. Ég er ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur því þar sem frumeintakið eyðilagðist þá er ég mikið til að gera þetta eftir minni og frekar óljósum teikningum. Ég er núna langt komin með að prjóna "prótótýpu" í einni stærð og bíð spennt eftir að sjá hvernig til tekst.



Ef allt gengur upp eins og ég ætla mér þá verða 3 stærðir í boði, þ.e. 3-6 mánaða, 6-9 mánaða og 9-12 mánaða. Mér finnst það akkúrat vera aldurinn þar sem maður er til í að eiga hlýja samfellu fyrir vagninn. Allavega var það upphaflega tilgangurinn með að prjóna svona á dóttur mína.

Tilgangurinn með þessum pósti er s.s. að hvetja mig í að klára og ég vonast til að geta deilt uppskriftinni á Ravelry í þessum mánuði :)