Tuesday, March 20, 2012

Hringtrefill - uppskrift

Það hafa rosalega margar haft samband við mig síðustu vikur og beðið um uppskrift af hringtreflinum. Hingað til hef ég bara átt enska útgáfu en ætla núna að pósta henni á íslensku. Gjössovell:


Stærð:
Ein stærð, ca. 120 cm að lengd.
Efni:
Abuelita Merino Worsted:                2 hespur 
eða
Fyberspates Scrumtious DK:         2 hespur

Prjónar 6-8 mm 

Notið frekar stærri prjóna heldur en minni, sérstaklega ef prjónað er fast. Þannig verður trefillinn léttari í sér.

Prjónfesta:

Skiptir ekki máli.

Aðferð:

Trefillinn er prjónaður fram og til baka með klukkuprjóni og svo saumaður saman í lokin.

Klukkuprjón:

Fitjið upp 40-46 lykkjur eftir því hvað trefillinn á að vera breiður.

Umferð 1: *Sláið bandinu upp á prjóninn, takið eina óprjónaða brugðið, prjónið 1 slétt* - Endurtakið *-* út umferð.

Umferð 2: *Sláið bandinu upp á prjóninn, takið eina óprjónaða brugðið,  prjónið 2 saman (þ.e. 1 lykkju og bandið sem var slegið upp á í fyrri umferð)* - Endurtakið *-* út umferð.

Endurtakið umferð 2 þar til ca. 50 cm eru eftir af garni. Notið garnið til að sauma saman endana tvo svo úr verði hringur. Einnig er hægt að lykkja þá saman.

 Góða skemmtun :)

Bleikur trefill úr Abuelita Merino Worsted