Saturday, December 21, 2013

Lopapeysur og rennilásar

Ég hef örugglega sagt það áður en ég HATA að setja rennilása í lopapeysur. Það verður bara aldrei nógu fínt finnst mér. Er með fína tækni til að opna peysurnar og hekla kant en þegar kemur að því að festa sjálfan rennilásinn þá verð ég bara pirruð og óska þess að viðtakandinn hefði bara valið hnappa.

Þess vegna varð ég ofboðslega spennt þegar ég sá þetta. Lítur út fyrir að vera þvílíka snilldin og ég get eiginlega ekki beðið eftir að prófa. Svo sá ég líka þessa uppskrift af veski, svipuð aðferð en hentar kannski ekki eins vel í peysur.

Nú er bara að drífa sig að prjóna lopapeysu og gera tilraunir ;)


Mig langar samt í svona í garðinn minn ...

Wednesday, December 18, 2013

Að taka út jafnt yfir umferð

Prjónauppskriftir innihalda oft setningu eins og "takið 16 lykkjur jafnt út yfir umferð" sem þýðir auðvitað að maður á að fækka lykkjunum um 16 eins jafnt og hægt er. Fyrir fullkomnunarperverta eins og mig er þetta mikill höfðuverkur, sérstaklega þar sem stærðfræði er alls ekki mín sterkasta hlið. Ég átti það til að eyða löngum tíma í að reikna út hversu margar lykkjur ættu að vera á milli úrtaka og lenti aðeins og oft í því að miskreikna mig og rekja upp (allt fyrir fullkomnun sjáðu til).

Svo fann ég þessa heimasíðu. Síðan þá hef ég ekki svo mikið sem reynt að reikna eitthvað eða vesenast. Hún er meira að segja í favorites í símanum mínum bara svona EF ég skyldi vera að prjóna akkúrat þessa umferð án þess að vera við tölvuna. Ég mæli með því að þið sem eruð jafn stærðfræðiheftar og ég tékkið á þessu. Líka þið hinar samt því þetta er bara svo þægilegt og sniðugt. Svo er líka hægt að auka jafnt út hér.

Ef einhver lumar samt á mjög, og þá meina ég MJÖG, einfaldri aðferð til að reikna þetta út sjálfur á fljótlegan hátt þá má endilega deila því með mér. Hvað veit ég nema þessi heimasíða hverfi einhverntíman af veraldarvefnum og skilji mig eftir í tómu tjóni ;)


Tuesday, December 10, 2013

Neon æði

Ég get ekki sagt annað en að ég elski neon tískuna sem er í gangi. Ég fékk geðveika neon bleika Nike Free skó frá manninum mínum og stóðst því ekki mátið þegar ég fann nánast eins litað garn í Rúmfatalagernum. Reyndar er það 100% akrýl sem ég er venjulega ekkert allt of hrifin af ... eeeen mér er alveg sama, liturinn er of flottur :)

Ég ákvað að gera klukkuprjóns hringtrefil úr garninu. Venjulega nota ég grófara og meira flöffí garn í hringtreflana mína en ég hugsaði með mér að það væri ágætt að eiga einn aðeins fíngerðari. Hver dokka er um 320 m og ég notaði eina í trefilinn.


Neon litir koma aldrei vel út á myndum finnst mér en liturinn er bæði bleikari og skærari í raun og veru, svona neon-kóralbleikur. Sama með skóna, þeir eru líka miklu skærari.

Ég þarf allavega ekki að hafa áhyggjur af því að týnast þegar ég fer út að ganga í skónum, með trefilinn og í neon-lopapeysunni sem ég prjónaði í sumar. Ég tók peysuna einmitt fyrir um daginn og síkkaði hana með þessari aðferð hér. Ég prjónaði hana ólétt og misreiknaði mig aðeins. Nú er hún miklu passlegri.
Svo er aldrei að vita nema ég skelli á mig neon naglalakki í stíl )



En ég er víst ekki sú eina sem er hrifin af neon litum á heimilinu. Synir mínir vildu báðir fá lopapeysur með neon munstri og kláraði ég fyrri peysuna um daginn.


Aftur skila litirnir sér enganvegin en hún er s.s. með neon-gulu, neon-appelsínugulu og neon-bleiku munstri. Hann valdi sjálfur litina og hefur sjaldan verið jafn til í að ganga í peysu sem ég prjóna á hann ;)

Sunday, December 8, 2013

Ljós í myrkri

Núna þegar myrkrið er sem mest er voðalega kósí að kveikja á kertum og hafa það notalegt. Mér finnst agalega huggulegt að prjóna í skammdeginu og horfa á gamla þætti af Midsomer Murders svona þegar ég er ekki að þykjast skrifa ritgerð. Jólin gefa manni síðan enn meiri ástæðu til að hafa falleg ljós í kring um sig en uppáhaldið mitt núna eru þessir kertastjakar:


Þeir eru heklaðir úr fíngerðu bómullargarni utan um tómar krukkur. Uppskriftina má finna hér.
Birtan sem kemur af þeim er svo falleg og mig langar eiginlega að gera marga, marga í viðbót og hafa þá út um allt :)