Tuesday, November 25, 2014

Krummapeysa handa Hrafnhildi

Öll börnin mín heita nöfnum sem eru fuglaheiti eða tengjast fuglum. Það er eiginlega bara tilviljun frekar en viljandi. Tvö þeirra hafa hrafn í nafninu sínu, Arnar Hrafn og Hrafnhildur. Þau eru krummarnir mínir og núna eiga þau bæði krummapeysur :)


Ég á bara uppskriftina sem birtist í Saumaklúbbspökkunum og minnir að hún sé ekki í svona lítilli stærð ... gáði ekki einu sinni heldur mældi barnið bara og byrjaði að prjóna :P
Peysan heppnaðist ágætlega en ég stytti munstubekkinn talsvert. Bæði því mér finnst fallegra að taka aðeins af munstrinu efst og vegna þess að berustykkið varð allt of hátt.
Ég notaði léttlopa og prjóna nr. 4,5.

Verst bara að peysan hans Arnars Hrafns er eiginlega orðin of lítil á hann. Þarf greinilega að gera aðra svo þau geti verið í stíl.
   

Wednesday, November 19, 2014

Frozen peysa

Ég var að klára þessa peysu handa eldri dóttur minni. Hún elskar Frozen og þá sérstaklega Elsu. Mér fannst þessi peysa því tilvalin handa henni.

 

Uppskriftin heitir Bylur og er í Óveðursblaðinu frá Ístex. Hún fæst líka stök á Ravelry undir nafninu "Frozen sweater". Ég notaði samt ekki stærðirnar sem gefnar eru upp heldur mældi dóttur mína og reiknaði lykkjufjöldan út frá prjónfestu. Mér finnst uppgefnu stærðirnar heldur stórar og með þessu móti fæ ég peysu sem passar fullkomlega.

Garnið sem ég notaði er léttlopi og ég bætti við glimmerþræði í munstrinu sem kemur alveg ágætlega út þótt hann sjáist ekki á mynd.

Ég er bara þrælánægð með peysuna og dóttir mín líka :)

 

Monday, November 10, 2014

Nýjar peysur

Ég hef ekkert verið allt of dugleg að sinna blogginu síðustu mánuði. Líklegast því ég lagðist í smá handavinnudvala eftir að ég byrjaði að vinna. Nú er þetta hins vegar allt að koma aftur og í vikunni kláraði ég tvær peysur.
Þetta er peysan Styrkur úr Lopi 29. Ég gerði hana úr létt lopa frekar en tvöföldum plötulopa. Þannig verður hún miklu léttari og ekki eins heit.

Þessi er eftir minni eigin uppskrift sem ég kalla Mosi. Kona frá Kanada pantaði hana hjá mér eftir að maðurinn hennar þæfði óvart lopapeysu sem hún keypti sér á ferðalagi um Ísland. Mér fannst ekki leiðinlegt að geta hjálpað henni að eignast aðra.
Fyrr í haust kláraði ég svo þessa:

Munstrið kemur úr gamalli Álafoss uppskrift en sniðið bjó ég til sjálf. Hún er gerð úr tvöföldum plötulopa og valdi eigandinn litina sjálfur.
Nú er ég að verða búin með allar pantanir og get ekki beðið eftir að byrja á öllum skemmtilegu verkefnunum handa mér og fjölskyldunni. Þau eru ófá og stærðin á garnhrúgunni minni í takti við það.