Monday, April 6, 2015

Ný síða ...

Ég er búin að ætla mér að færa síðuna yfir í annað kerfi lengi og hef nú loksins látið verða af því.

Kíkið á www.prjonastelpa.com því framvegis mun ég pósta þar :)


Thursday, March 5, 2015

Ný peysa og smá myndataka

Ég hef verið að dunda mér við að prjóna eftir minni eigin uppskrift í ýmsum litasamsetningum og kláraði þessa um daginn.



Er ekkert lítið ánægð með útkomuna og gat því ekki annað en tekið smá myndatöku með elsta syninum og dótturinni. Finnst snjókoman gefa endalaust skemmtilegan blæ og passa sérlega vel við íslenska lopann :)

Ég gerði þessa hvítu um daginn og er líka mjög ánægð með hana. Finnst hins vegar gaman að leika mér með litina og sjá hvernig munstrið breytist.



Næsta peysa verður brúntóna og er ég mjög spennt að klára.


Tuesday, February 3, 2015

Ungbarnasamfella úr Kambgarni

Fyrir nokkrum árum prjónaði ég þessa fínu samfellu á eldri dóttur mína sem þá var tæplega ársgömul. Ég setti uppskriftina saman úr mismunandi hugmyndum sem ýmist áttu sér uppsprettu í kollinum á mér eða prjónablöðum.


Ég notaði Kambgarn í hana sem voru ábyggilega verstu mistökin því hún eyðilagðist í þvotti rétt eftir að ég kláraði hana. Ég man ekki lengur hvort það var mér eða manninum mínum að kenna en notum hann sem sökudólg ;)

Ekki misskilja samt, ég elska Kambgarn og nota aftur og aftur. Ég veit bara að næst þarf að passa extra vel að þvo varlega í höndunum.

En með samfelluna þá er ég oft spurð hvort ég eigi uppskriftina eða sé til í að skrifa hana upp. Hingað til hef ég eitthvað verið að draga lappirnar með það. Örugglega mest vegna þess hversu fúl ég var þegar samfellan eyðilagðist. En ég ákvað svo skyndilega að demba mér bara í það. Ég er ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur því þar sem frumeintakið eyðilagðist þá er ég mikið til að gera þetta eftir minni og frekar óljósum teikningum. Ég er núna langt komin með að prjóna "prótótýpu" í einni stærð og bíð spennt eftir að sjá hvernig til tekst.



Ef allt gengur upp eins og ég ætla mér þá verða 3 stærðir í boði, þ.e. 3-6 mánaða, 6-9 mánaða og 9-12 mánaða. Mér finnst það akkúrat vera aldurinn þar sem maður er til í að eiga hlýja samfellu fyrir vagninn. Allavega var það upphaflega tilgangurinn með að prjóna svona á dóttur mína.

Tilgangurinn með þessum pósti er s.s. að hvetja mig í að klára og ég vonast til að geta deilt uppskriftinni á Ravelry í þessum mánuði :)

  

Saturday, January 24, 2015

Ný uppskrift - Kuldi lopapeysa fyrir börn

Jæja þá er maður búinn að skella í aðra lopapeysuuppskrift.
Mér finnst nefnilega alveg ótrúlega gaman að teikna upp lopapeysumunstur og er með nokkur í pípunum til að gefa út á næstu vikum og mánuðum. Þetta er bara svo tímafrekt ferli því ég þarf að prufuprjóna hvert munstur. Þannig að yfirleitt teikna ég mun fleiri en ég gef út á endanum :P



Þetta munstur heitir Kuldi og er svona frekar hefðbundið, gamaldags lopapeysumunstur. Það kemur í 3 stærðum: 4, 6 og 8 ára. Uppskriftin miðast við léttlopa en það má alveg nota t.d. einfaldan plötulopa og einband eða annað garn sem er ekki lopi en með sömu prjónfestu, t.d. Cascade 220 sem fæst í Handprjón.is.

Uppskriftina má kaupa af mér á Ravelry eða með því að smella hér.

  

Tuesday, November 25, 2014

Krummapeysa handa Hrafnhildi

Öll börnin mín heita nöfnum sem eru fuglaheiti eða tengjast fuglum. Það er eiginlega bara tilviljun frekar en viljandi. Tvö þeirra hafa hrafn í nafninu sínu, Arnar Hrafn og Hrafnhildur. Þau eru krummarnir mínir og núna eiga þau bæði krummapeysur :)


Ég á bara uppskriftina sem birtist í Saumaklúbbspökkunum og minnir að hún sé ekki í svona lítilli stærð ... gáði ekki einu sinni heldur mældi barnið bara og byrjaði að prjóna :P
Peysan heppnaðist ágætlega en ég stytti munstubekkinn talsvert. Bæði því mér finnst fallegra að taka aðeins af munstrinu efst og vegna þess að berustykkið varð allt of hátt.
Ég notaði léttlopa og prjóna nr. 4,5.

Verst bara að peysan hans Arnars Hrafns er eiginlega orðin of lítil á hann. Þarf greinilega að gera aðra svo þau geti verið í stíl.
   

Wednesday, November 19, 2014

Frozen peysa

Ég var að klára þessa peysu handa eldri dóttur minni. Hún elskar Frozen og þá sérstaklega Elsu. Mér fannst þessi peysa því tilvalin handa henni.

 

Uppskriftin heitir Bylur og er í Óveðursblaðinu frá Ístex. Hún fæst líka stök á Ravelry undir nafninu "Frozen sweater". Ég notaði samt ekki stærðirnar sem gefnar eru upp heldur mældi dóttur mína og reiknaði lykkjufjöldan út frá prjónfestu. Mér finnst uppgefnu stærðirnar heldur stórar og með þessu móti fæ ég peysu sem passar fullkomlega.

Garnið sem ég notaði er léttlopi og ég bætti við glimmerþræði í munstrinu sem kemur alveg ágætlega út þótt hann sjáist ekki á mynd.

Ég er bara þrælánægð með peysuna og dóttir mín líka :)

 

Monday, November 10, 2014

Nýjar peysur

Ég hef ekkert verið allt of dugleg að sinna blogginu síðustu mánuði. Líklegast því ég lagðist í smá handavinnudvala eftir að ég byrjaði að vinna. Nú er þetta hins vegar allt að koma aftur og í vikunni kláraði ég tvær peysur.
Þetta er peysan Styrkur úr Lopi 29. Ég gerði hana úr létt lopa frekar en tvöföldum plötulopa. Þannig verður hún miklu léttari og ekki eins heit.

Þessi er eftir minni eigin uppskrift sem ég kalla Mosi. Kona frá Kanada pantaði hana hjá mér eftir að maðurinn hennar þæfði óvart lopapeysu sem hún keypti sér á ferðalagi um Ísland. Mér fannst ekki leiðinlegt að geta hjálpað henni að eignast aðra.
Fyrr í haust kláraði ég svo þessa:

Munstrið kemur úr gamalli Álafoss uppskrift en sniðið bjó ég til sjálf. Hún er gerð úr tvöföldum plötulopa og valdi eigandinn litina sjálfur.
Nú er ég að verða búin með allar pantanir og get ekki beðið eftir að byrja á öllum skemmtilegu verkefnunum handa mér og fjölskyldunni. Þau eru ófá og stærðin á garnhrúgunni minni í takti við það.

  

Wednesday, April 16, 2014

Ný uppskrift - ungbarnahúfa með áttblaðarós

Ég prjónaði þessa húfu fyrst þegar eldri dóttir mín var ungabarn árið 2010. Var búin að gera samfellu sem ég var voða ánægð með og ákvað að skálda húfu í stíl. Svo pældi ég bara ekkert meira í því og var agalega ánægð með settið. Nema svo tókst mér auðvitað að eyðileggja samfelluna í þvotti þannig að hún var því miður ekki mikið notuð. En húfuna notaði ég helling.



Núna nýlega tók ég svo upp húfuna til að nota fyrir yngri dóttur mína og mundi þá hvað ég var ægilega ánægð með hana. Ég ákvað því að skrifa niður uppskriftina og er hún nú til sölu á Ravelry og HÉR. Reyndar er bara ein stærð í boði, 4-6 mánaða, en það er hægt að stækka eða minnka með því að nota fínna eða grófara garn. Ég notaði Kambgarn í mína húfu. 

Svo mæli ég með snilldar dúska-græjunum frá Clover til að gera dúskinn. Ég keypti mínar í Storkinum og þarf eiginlega að eignast fleiri stærðir, er svo dúskasjúk. Mun aldrei aftur nenna að gera þá með pappaspjaldi.

Thursday, March 6, 2014

Ný uppskrift - Mosi lopapeysa


Ég var að ljúka við uppskrift af þessari peysu á íslensku. Það er hægt að nálgast hana í gegnum Ravelry eða hérna:


Peysan er prjónuð úr tvöföldum plötulopa og kemur í 5 stærðum.

Allar ábendingar um villur eða hvað má betur fara eru vel þegnar :)

Saturday, December 21, 2013

Lopapeysur og rennilásar

Ég hef örugglega sagt það áður en ég HATA að setja rennilása í lopapeysur. Það verður bara aldrei nógu fínt finnst mér. Er með fína tækni til að opna peysurnar og hekla kant en þegar kemur að því að festa sjálfan rennilásinn þá verð ég bara pirruð og óska þess að viðtakandinn hefði bara valið hnappa.

Þess vegna varð ég ofboðslega spennt þegar ég sá þetta. Lítur út fyrir að vera þvílíka snilldin og ég get eiginlega ekki beðið eftir að prófa. Svo sá ég líka þessa uppskrift af veski, svipuð aðferð en hentar kannski ekki eins vel í peysur.

Nú er bara að drífa sig að prjóna lopapeysu og gera tilraunir ;)


Mig langar samt í svona í garðinn minn ...