Ég fór í Hagkaup um daginn að gera eitthvað allt annað en kaupa garn enda á ég miklu meira en nóg af því. Hinsvegar stóðst ég ekki mátið þegar ég sá svo æðislega fallega og sumarlega liti í léttlopanum. Ég hef alveg séð þá áður en þarna var búið að stilla þeim svo fallega upp hlið við hlið að ég gat ekki annað en keypt eina af hverjum. Í þokkabót eru þeir yrjóttir sem mér finnst svo æðislegt.
Allavega þá ákvað ég að prjóna strax úr þeim til að réttlæta kaupin. Með því að bæta við smá brúnum afgöngum varð útkoman þessi:
Uppskriftirnar af vettlingunum eru af póstkortum sem fást hér og þar og húfan er afbökun á mynstri úr Lopi 2 eða Cintamani mynstrinu víðfræga.
Wednesday, May 26, 2010
Sumarhúfa
Mig vantaði sólhatt fyrir litla barnið mitt og fannst ekki annað hægt en að prjóna slíkan sjálf. Uppskriftina fann ég á www.ravelry.com undir Summer baby hat. Þetta er frekar einföld uppskrift og stærðina aðlagar maður að höfðustærð barnsins og garninu. Ég notaði Drops Safran sem ég keypti fyrir lifandis löngu og er alveg þrælánægð með útkomuna.
Monday, May 10, 2010
Ullarsápa
Saturday, May 8, 2010
Crochet steeking - Opin lopapeysa en engin saumavél
Ég rakst á þessa aðferð við að gera opnar peysur um daginn og fannst algjör snilld. Ég hata að sauma kantinn í saumavél, finnst alltaf eins og hann verði stífur og ómögulegur.
Allavega þá beið ég ekki boðanna og skellti í eina opna lopapeysu.
Það fyrsta sem maður þarf að hugsa um er að gera ekki tvær brugnar upp bolinn heldur 3-7 sléttar í staðin. Það verður að vera oddatala og ég myndi frekar velja 5-9 heldur en 3. Sem sagt, ef uppskriftin segir að fitja eigi upp 155 lykkjur fyrir bolinn þá myndi maður t.d. fitja upp 160 og þá væru 5 aukalykkjur sem væru þá í upphafi/lok umferðar og myndu tákna miðjuna framaná (bara alveg eins og þegar maður gerir tvær brugnar).
Síðan prjónar maður bara eftir uppskrift eins og venjulega. Það eina sem maður þarf að passa er að í munstrinu verður maður að prjóna aukjalykkjurnar þannig að þær verði röndóttar þ.e. ein lykkja í lit A og svo ein í lit B o.s.frv. (sést betur á myndunum). Þetta er gert til þess að engir langir spottar liggi bakvið lykkjurnar þar sem maður klippir.
Svo þegar búið er að prjóna, ganga frá endum og það allt þá byrja skemmtilegheitin:
Fyrst finnur maður miðjulykkjuna af aukalykkjunum og heklar fastapinna í helminginn af henni og helminginn af næstu lykkju alla leiðina niður (eða upp). Síðan gerir maður það sama við hinn helminginn og lykkjuna hinumegin. Ég mæli reyndar með því að skoða www.eunnyjang.com/knit/2006/01/the_steeking_chronicles_part_i.html
til að fá betri og nákvæmari útskýringu á þessu.
Ég notaði léttlopa og litla nál til að hekla en peysan er úr þreföldum plötulopa. Ég las einhverstaðar að það væri betra að nota fínna garn ef maður getur. Maður verður bara að passa að garnið geti þæfst.
Þegar maður er búinn að hekla báðu megin þá er bara klippt á milli.
Að lokum brettir maður kantinn inn og heklar annan kant eða saumar rennilás beint í. Það er út af þessu sem það er betra að hafa fleiri en 3 aukalykkjur. Þá verður breiðari kantur inni í peysunni sem mér finnst bæði fallegra og öruggara upp á að ekkert rakni upp.
Peysan mín hefur ekki enn raknað upp. Ég setti rennilás í hana og finnst þetta bara æði.
Subscribe to:
Posts (Atom)