Monday, December 19, 2011

HringtreflaæðiÉg er með æði fyrir hringtreflum. Er búin að gera þrjá á síðustu vikum. Gerði tvo úr Abuelita Merino Worsted og einn úr Fyberspate Scrumtious DK. Þeir eru allir æðislegir.

Grifflur


Mig er búið að vanta hlýjar og góðar grifflur í hlutlausum litum. Ég veit eiginlega ekki hvers vegna ég er búin að draga það svona lengi að prjóna mér. Ég lét allavega loksins vaða í þessar og er mjög sátt. Gott að eiga svona og skella t.d. yfir leðurhanska á köldum degi.
Uppskriftin er mín eigin og garnið er léttlopi á prjóna nr 4.

Saturday, December 3, 2011

Hringtrefill


Ég prjónaði mér yndislegan hringtrefil úr Abuelita Merino Worsted úr Handprjón.is. Hann er prjónaður með klukkuprjóni á prjóna nr. 6 og er svo yndislega mjúkur og hlýr. Fer varla út án hans þessa dagana.

Friday, November 25, 2011

Ný uppskrift - Barnapeysan FrostVar að setja þessa uppskrift inn á Ravelry undir nafninu Frost.
Hún er prjónuð úr Létt-lopa og fæst í stærðunum 1-4 ára.

Fyrir þær sem ekki hafa Ravelry-aðgang þá er hægt að kaupa uppskriftina beint hér:

Thursday, October 27, 2011

Systuhúfan


Ég fæ rosalega oft fyrirspurnir um þessa húfu og ætla eiginlega að svara þeim bara öllum núna.

Málið er að ég á ekki þessa hönnun og finnst ég ekki hafa neinn rétt á að vera að deila uppskriftinni þangað sem mér sýnist. Þótt ég væri alveg til í að dreifa henni þá er það því miður bara ekki mitt að gera, a.m.k. ekki án leyfis.

Friday, October 14, 2011

Krókódílahekl


Ég ætla að vera með námskeið í krókódílahekli næsta mánudag (17. okt.) Þetta verður ein kvöldstund þar sem ég kenni aðferðina og hvernig maður gerir sjal. Þáttakendur þurfa ekki að kunna að hekla þótt það sé auðvitað kostur.
Áhugasamir geta kíkt á facebook síðuna mína Prjónanámskeið og prjónavörur og fengið frekari upplýsingar.

Sjalaverkefnið mitt í fullum gangi


Ég ákvað að byrja á verkefni sem felur það í sér að prjóna eitt sjal úr hverjum sumarlit fyrir sig í plötulopanum. Reyndar get ég ekki gert úr alveg öllum því það er ekki til einband sem passar við en ég ætla að gera úr öllum sem ég get.
Núna er ég búin með báða bleiku litina, þann fjólubláa og er hálfnuð með gula. Ég vonast síðan til að geta selt sjölin þegar ég er búin ... ef ég tími ;)

Wednesday, September 14, 2011

Ný uppskrift - Varius trefill


Ég er búin að eiga svo fallegt garn allt of lengi ofan í skúffu. Það er Araucania Aysen, ofsalega marglitt og fallegt. Gallinn er bara að mér finnst svo erfitt að finna verkefni sem hæfa svona mikið litaskiptu garni. Mig langaði alltaf að gera sjal en fann ekkert sem mér fannst flott og passlegt þannig að ég ákvað að breyta og gera trefil. Þá fann ég auðvitað engan trefil þannig að ég fór að gúggla og skoða á youtube. Þar lærði ég ýmis sniðug prjónspor og endaði á því að gera einfalda uppskrift af trefli með áferð sem mér finnst hæfa garninu.


Eins og sést á myndinni þá minnir þetta á ofið efni ... eða mér finnst það.

Allavega þá er uppskriftin ókeypis á Ravelry og bæði til á íslensku og ensku.

Enjoy :)

Monday, September 5, 2011

Sjalanámskeið 12. september


Jæja þá ætla ég að vera með fyrsta sjalanámskeið vetrarins.
Allar upplýsingar um verð, tíma og fyrirkomulag má finna hér.

Ný uppskrift - Lopavettlingar


Ég bjó til nýja uppskrift í gær. Hún er af einföldum barnavettlingum með þumaltungu. Ég miða við að þeir séu úr léttlopa og fyrir 2-3 ár eða 4-5 ára. Mér finnst nefnilega orðið þægilegra að gera vettlinga með þumaltungu frekar en að gera hefðbundinn þumal. Reyndar kannski ekki ef maður er með munstur en fyrir svona fjöldaframleidda, einlita vettlinga þá er þetta snilld að kunna.

Uppskriftin er ókeypis og má nálgast hana á Ravelry eða hérna til hægri.

Thursday, August 25, 2011

Lítil peysa á litla skvísu

Ég kláraði þessa í dag og er ofboðslega ánægð.


Uppskriftin er á Ravelry og heitir Pepper. Garnið sem ég notaði heitir Cascade 220 og er frá Handprjón.is.
Peysan er prjónuð frá hálsmáli og niður og það er lítið sem ekkert saumavesen því listarnir eru prjónaðir um leið og búkurinn. Mjög sneddí.


Dóttir mín er alsæl og heimtar jafnvel að fá að sofa í henni.

Tuesday, August 16, 2011

Námskeið í haust og vetur

Í haust og vetur ætla ég að bjóða upp á námskeið í samstarfi við Silki.is. Við verðum með húsnæði í Hafnafirðinum og erum með ýmislegt í bígerð. Ég ætla að halda áfram að kenna konum að prjóna sjöl og svo eru hugmyndir um opin hús og ýmis örnámskeið. Svo verður með okkur ein sem kennir hekl. Hún er með síðuna Heklnámskeið á Facebook.
Eitt af því sem mig langar að kenna er allt um garn og prjónfestu. Mér finnst svo margar eiga í vandræðum með að skipta út garni í uppskriftum og breyta eftir prjónfestu þannig að ég held að það gæti verið gaman að taka kvöldstund í svona námskeið. Any thoughts?

Sunday, August 14, 2011

Hello kitty bangsi

Ég á tveggja ára stelpu sem elskar Hello Kitty. Mig langaði alltaf að kaupa handa henni Hello Kitty bangsa en þeir eru bara svo óóógeðslega dýrir. Svo þegar ég sá þetta: http://www.etsy.com/listing/61025426/pdf-kitty-108-inches-27-cm-amigurumi, þá stóðst ég ekki mátið.


Ég notaði eitthvað mjúkt Phildar garn, úr Föndru, í hausinn og hendurnar en Tove úr Europris í kjólinn. Mér gekk reyndar ferlega illa að festa hausinn á þannig að hann varð svolítið teygður. En ég er samt nokkuð ánægð með útkomuna. Þetta var allavega mun skemmtilegra og ódýrara en að fara út í búð og kaupa tilbúinn bangsa :)

Hér er svo daman með gripinn:


Monday, August 8, 2011

Stutterma lopapeysa

Ég gerði um daginn stutterma lopapeysu. Reyndar var það þannig að ég var að laga til í garninu mínu og fann hálf kláraðan búk af lopapeysu sem ég man ekkert hvernig átti að enda. En ég ákvað s.s. að nota hann í þessa peysu þar sem liturinn smellpassaði við Evilla ullina sem ég var nýbúin að kaupa.

Sniðið er mín eigin samsuða en munstrið er úr Lopi 30.


Sunday, August 7, 2011

Prjónasumar

Ég er búin að vera á ferðalagi síðan fyrir helgi. Að sjálfsögðu prjónaði ég eins mikið og ég gat og náði að næstum því klára tvö eða þrjú verkefni (garnið kláraðist sko alltaf).

Fyrst fór ég að Reykholti í Borgarfirði og á leiðinni til baka stoppuðum við í Ullarselinu á Hvanneyri. Þar fann ég helling af garni sem mig langar að kaupa og fer pottþétt aftur seinna með nóg inni á kortinu.
Við stoppuðum líka og skoðuðum Hraunfossa þar sem mér fannst tilvalið að monta mig aðeins af rauðu útivistarlopapeysunni minni.


Hún er úr einföldum plötulopa og einföldu Abuelita Merino Lace garni, ofboðslega mjúk og þægileg. Munstrið er Var úr Lopi 29 en ég notaði mitt eigið snið og setti þumalgöt á ermarnar. Ég kalla hana útivistarpeysuna því ég gerði hana í stíl við rándýra rauða útivistarjakkann sem ég keypti í vor.

Anyways ...

Seinni ferðin var í sumarbústað við Rangá og enn og aftur gerði ég mér ferð í Þingborg á leiðinni. Því miður var svarta tvíbandið sem mig vantar uppselt og þá er ég strand með sjalið mitt í bili.

Ég sat síðan í sólinni í dag í nýju lopapeysunni minni og prjónaði sjal.


Þessi peysa er úr léttlopa, sniðið er eftir mig og munstrið er úr Lopablaði og heitir Eyja.

Tuesday, July 26, 2011

Nóg að gera ...

Ég hef ekkert verið rosalega dugleg að setja inn nýtt efni hérna ... Kannski því ég hef nóg að gera þessa dagana. Fyrir utan það að vera með börnin heima í sumarfríi og allt sem því fylgir þá rembist ég við að skrifa BA ritgerð og auðvitað prjóna eins og vitleysingur. Þið megið giska hvort mér finnst skemmtilegra ...

En til gamans skelli ég hérna inn mynd sem ég gerði fyrir keppni í vor á www.ljosmyndakeppni.is. Svona er maður nú sjúkur þegar kemur að garni ;)

Sunday, April 17, 2011

Myndamont

Ég hef verið að dunda mér við að mynda þær flíkur sem ég hef prjónað. Fékk systur mína og frænku til að sitja fyrir og hér er sýnishorn:

Sunday, April 3, 2011

Klukkan mínÉg kláraði þennan kjól í gær.
Uppskriftin er úr Lopablaði og garnið er léttlopi. Ég breytti samt munstrinu og teiknaði sjálf eftir hugmyndum úr Sjónabók.
Ég er frekar ánægð með útkomuna.

Friday, March 25, 2011

Garngredda ...

Ég er svo mikill garnpervert. Í gær byrjaði ég á enn einu sjalinu (Gail, Nightsongs enn og aftur), í þetta skiptið úr Abuelita merino-silkiblöndu úr Handprjón.is. Þetta er sko alveg 40% silki eða eitthvað og shit þetta er svo gordjöss garn!
Ég stoppaði inn á milli bara til að klappa stykkinu og dást að því. Íhugaði jafnvel að fara í búðina og kaupa upp lagerinn ...

Thursday, March 24, 2011

Tímaskortur ...

Ég hef ekki tíma fyrir allar hugmyndirnar í kollinum á mér. Það er svo margt sem mig langar að prjóna og gera en hef ekki pláss fyrir í dagskránni. Get eiginlega ekki beðið eftir því að sumarið komi. Þá hef ég "ekkert" betra að gera en að prjóna. Ég meina hvað getur ein BA ritgerð tekið mikinn tíma frá því sem skiptir máli? ... ;)

Tuesday, March 15, 2011

Uppskrift af álfahúfunni minni


Ég setti uppskriftina af álfahúfunni minni á blað í gær, bæði á íslensku og ensku.
Hún er núna til sölu á Ravelry undir nafninu "Little gnome hat" en ég setti líka link hér til hliðar. Maður þarf víst ekki að vera með aðgang að Ravelry til að nota hann. Mjög sneddí ;)

Facebook síða

Ég bjó til Facebook síðu í gær til að selja prjónavörur og halda utan um örnámskeið sem ég er að prófa mig áfram með.

Undanfarið hef ég verið að kenna konum að prjóna Haruni sjalið og það er búið að vera ógeðslega gaman. Ég ákvað því að stíga skrefinu lengra og prófa að bjóða upp á fleira eins og kvöldkennslu í því hvernig á að gera tvo hluti á einn hringprjón.

Fyrir þær sem hafa áhuga á að kíkja á þetta hjá mér þá er heitir þetta "Prjónavörur og prjónanámskeið" inni á Facebook (ég get af einhverjum ástæðum ekki sett link í þennan póst).

Monday, February 28, 2011

Still Light kjóll


Ég byrjað á þessum kjól í sumar. Var alveg hoppandi kát þegar ég fann uppskriftina, keypti hana strax og byrjaði að spá í garn. Það tók mig heillangan tíma að velja lit og ég gerði ýmsar tilraunir með garn. Ég tímdi nefnilega alls ekki að kaupa Drops Alpaca sem er gefið upp og endaði s.s. á að nota Sisu í þessum fína túrkísbláa lit.

Kjóllinn endaði svo sem svona "in between" verkefni og ég kláraði hann loksins í síðustu viku ... til þess eins að komast að því að hann er of stór, voða sætur en of stór. Þannig að ég er auðvitað byrjuð á öðrum (en ekki hvað?) úr gráu Drops Alpaca sem ég tímdi loksins að splæsa í.

Vettlingaæði

Ég fékk nett vettlingaæði um daginn og gerði fullt af vettlingum bæði á mig og börnin.


Þessa gerði ég úr Abuelita Merino Worsted og Novita litaskiptu garni. Þeir eru æðislega mjúkir. Uppskriftin er aðlöguð úr Fleiri Prjónaperlum.
Sonur minn fékk þessa. Þeir eru úr léttlopa og uppskriftin er úr Vettlingar og fleira. Mér tókst að gera villu í munstrinu á öðrum og það er að gera mig geðveika :P
Þessir eru í karlmannsstærð og úr Álafosslopa. Uppskriftin er sú sama og barnavettlingarnir hér á undan.
Þessir eru úr Álafosslopa og þæfðir í klessu. Uppskriftin er samsuða úr bókinni Vettlingar og fleira.
Hér eru svo Bella's mittens á mig. Myndin gerir þeim reyndar ekkert sérlega góð skil því þeir eru hrikalega mjúkir og djúsí. Garnið er Abuelita silkiblönduð merinoull. Yndislegt alveg.
Að lokum, mynd af herlegheitunum.

Saturday, February 19, 2011

Snjókorn

Fyrir jól heklaði ég nokkur snjókorn til að hengja upp í gluggann. Mjög skemmtileg verkefni og aragrúi af fríum uppskriftum til á Ravelry.
Lopakjóll


Þessi kjóll er úr bókinni Strikketøj eftir Helgu Isager. Ég er búin að ætla mér að gera hann alveg heillengi. Byrjaði á honum fyrir u.þ.b. ári síðan nema úr öðru garni en kláraði aldrei. Svo þegar ég frétti að kóngablái plötulopinn væri kominn aftur þá fannst mér tilvalið að gera einn svona kjól úr honum (enda keypti ég rúmlega kíló til að eiga). Ég bætti síðan við bláum glitþræði í berustykkið til að gera kjólinn smá "fansí".

Það gekk samt ekki áfallalaust að prjóna úr einföldum plötulopa. Ekki því ég væri alltaf að slíta heldur því ég var svo hrædd um að prjónlesið héldi ekki. Ég náði samt að jafna mig á endanum og prjónaði mig í gegn um uppskriftina. Þá komst ég að því að með því að fylgja henni og gera útaukningar niður eftir öllum kjólnum þá varð hann allt, allt of víður. Ég rakti því upp nánast upp að berustykki og prjónaði aftur án útaukninga. Hann er enn víður en miklu skárri. Reyndar er ég bara frekar ánægð með hann og nota helling.

Monday, February 7, 2011

Heklaða sjalið mittKláraði þetta fína sjal um daginn og er alveg ofboðslega ánægð með það. Upphaflega langaði mig að gera svart/hvítt sjal en svo þegar ég fann ekki þannig garn sem ég var ánægð með ákvað ég að splæsa í þennan hrikalega fallega lit frá Evilla.
Það fóru tæplega tvær 220g hespur í sjalið og það er hrikalega þykkt og kósý. Hugsa samt að næst myndi ég nota stærri heklunál til að fá betra "drape" í sjalið.
Uppskriftin er af Ravelry og má finna undir Bonita patterns.