Saturday, December 21, 2013

Lopapeysur og rennilásar

Ég hef örugglega sagt það áður en ég HATA að setja rennilása í lopapeysur. Það verður bara aldrei nógu fínt finnst mér. Er með fína tækni til að opna peysurnar og hekla kant en þegar kemur að því að festa sjálfan rennilásinn þá verð ég bara pirruð og óska þess að viðtakandinn hefði bara valið hnappa.

Þess vegna varð ég ofboðslega spennt þegar ég sá þetta. Lítur út fyrir að vera þvílíka snilldin og ég get eiginlega ekki beðið eftir að prófa. Svo sá ég líka þessa uppskrift af veski, svipuð aðferð en hentar kannski ekki eins vel í peysur.

Nú er bara að drífa sig að prjóna lopapeysu og gera tilraunir ;)


Mig langar samt í svona í garðinn minn ...

Wednesday, December 18, 2013

Að taka út jafnt yfir umferð

Prjónauppskriftir innihalda oft setningu eins og "takið 16 lykkjur jafnt út yfir umferð" sem þýðir auðvitað að maður á að fækka lykkjunum um 16 eins jafnt og hægt er. Fyrir fullkomnunarperverta eins og mig er þetta mikill höfðuverkur, sérstaklega þar sem stærðfræði er alls ekki mín sterkasta hlið. Ég átti það til að eyða löngum tíma í að reikna út hversu margar lykkjur ættu að vera á milli úrtaka og lenti aðeins og oft í því að miskreikna mig og rekja upp (allt fyrir fullkomnun sjáðu til).

Svo fann ég þessa heimasíðu. Síðan þá hef ég ekki svo mikið sem reynt að reikna eitthvað eða vesenast. Hún er meira að segja í favorites í símanum mínum bara svona EF ég skyldi vera að prjóna akkúrat þessa umferð án þess að vera við tölvuna. Ég mæli með því að þið sem eruð jafn stærðfræðiheftar og ég tékkið á þessu. Líka þið hinar samt því þetta er bara svo þægilegt og sniðugt. Svo er líka hægt að auka jafnt út hér.

Ef einhver lumar samt á mjög, og þá meina ég MJÖG, einfaldri aðferð til að reikna þetta út sjálfur á fljótlegan hátt þá má endilega deila því með mér. Hvað veit ég nema þessi heimasíða hverfi einhverntíman af veraldarvefnum og skilji mig eftir í tómu tjóni ;)


Tuesday, December 10, 2013

Neon æði

Ég get ekki sagt annað en að ég elski neon tískuna sem er í gangi. Ég fékk geðveika neon bleika Nike Free skó frá manninum mínum og stóðst því ekki mátið þegar ég fann nánast eins litað garn í Rúmfatalagernum. Reyndar er það 100% akrýl sem ég er venjulega ekkert allt of hrifin af ... eeeen mér er alveg sama, liturinn er of flottur :)

Ég ákvað að gera klukkuprjóns hringtrefil úr garninu. Venjulega nota ég grófara og meira flöffí garn í hringtreflana mína en ég hugsaði með mér að það væri ágætt að eiga einn aðeins fíngerðari. Hver dokka er um 320 m og ég notaði eina í trefilinn.


Neon litir koma aldrei vel út á myndum finnst mér en liturinn er bæði bleikari og skærari í raun og veru, svona neon-kóralbleikur. Sama með skóna, þeir eru líka miklu skærari.

Ég þarf allavega ekki að hafa áhyggjur af því að týnast þegar ég fer út að ganga í skónum, með trefilinn og í neon-lopapeysunni sem ég prjónaði í sumar. Ég tók peysuna einmitt fyrir um daginn og síkkaði hana með þessari aðferð hér. Ég prjónaði hana ólétt og misreiknaði mig aðeins. Nú er hún miklu passlegri.
Svo er aldrei að vita nema ég skelli á mig neon naglalakki í stíl )En ég er víst ekki sú eina sem er hrifin af neon litum á heimilinu. Synir mínir vildu báðir fá lopapeysur með neon munstri og kláraði ég fyrri peysuna um daginn.


Aftur skila litirnir sér enganvegin en hún er s.s. með neon-gulu, neon-appelsínugulu og neon-bleiku munstri. Hann valdi sjálfur litina og hefur sjaldan verið jafn til í að ganga í peysu sem ég prjóna á hann ;)

Sunday, December 8, 2013

Ljós í myrkri

Núna þegar myrkrið er sem mest er voðalega kósí að kveikja á kertum og hafa það notalegt. Mér finnst agalega huggulegt að prjóna í skammdeginu og horfa á gamla þætti af Midsomer Murders svona þegar ég er ekki að þykjast skrifa ritgerð. Jólin gefa manni síðan enn meiri ástæðu til að hafa falleg ljós í kring um sig en uppáhaldið mitt núna eru þessir kertastjakar:


Þeir eru heklaðir úr fíngerðu bómullargarni utan um tómar krukkur. Uppskriftina má finna hér.
Birtan sem kemur af þeim er svo falleg og mig langar eiginlega að gera marga, marga í viðbót og hafa þá út um allt :)

Monday, November 25, 2013

Ný peysa og vettlingar

Ég kláraði nýlega þessa lopapeysu og vettlinga úr plötulopa og Evilla ull.Er rosalega ánægð með peysuna. Konan sem pantaði hana valdi litina sjálf og ég er ekki frá því að ég muni nota þessa samsetningu aftur.

Wednesday, November 13, 2013

Tímaleysi

Mig langar svo að geta lesið og prjónað á sama tíma. Það myndi einfalda lífið mitt svo mikið því þá gæti ég lesið heimildir fyrir ritgerðina mína og samt gert eitthvað skemmtilegt um leið. Það myndi líka spara mér tíma því ég þarf bæði að lesa og prjóna nokkra hluti sem voru pantaðir hjá mér. Hugsa að þetta sé líka framkvæmanlegra heldur en að fjölga klukkutímunum í sólarhring ... ;)


Thursday, November 7, 2013

Tvær nýjar peysur

Ég kláraði nýlega tvær lopapeysur sem kona í Þýskalandi pantaði hjá mér. Hún valdi týpurnar og litina sjálf og ég bara prjónaði.


Fyrri peysan er Ranga úr Lopi 29. Ég gerði hana alla úr tvöföldum plötulopa í staðin fyrir að blanda saman Álafoss lopa og léttlopa eins og uppskriftin segir til um. Ég verð samt að segja að þetta er ein leiðinlegasta peysa sem ég hef prjónað so far. Ekki bara brugna munstrið heldur öll peysan. EF ég geri hana aftur þá ætla ég að breyta sniðinu og gera munstrið allt slétt því mér finnst það aksjúlí alveg fallegt.


Seinni peysan er Jón (undarlegt nafn á peysu finnst mér) úr Lopi 31. Hún er einnig úr tvöföldum plötulopa og mér finnst litirnir og munstrið ofsalega fallegt og merkilega skemmtilegt að prjóna.

Nú er bara að vona að væntanlegir eigendur verði ánægðir :)

Thursday, October 31, 2013

Smá off topic - fatasala

Ég ætla aðeins að víkja frá handavinnunni og segja ykkur frá fatasölunni sem við systur og frænkur erum að halda yfir helgina.

Það verða allskonar föt, mikið úr H&M t.d., skart, snyrtivörur, skór ofl. til sölu á mjög góðu verði. Aldrei að vita nema ég reyni að losa mig við eitthvað af garnlagernum mínum líka ;)

Þetta er staðsett að Mánagötu 4 í Reykjavík og opnar kl. 16 í dag.

Hérna er Facebook síðan okkar og þar er hægt að sjá myndir og senda fyrirspurnir ofl.


Saturday, October 12, 2013

Annað Dream Stripes sjal

Ég kláraði annað Dream Stripes sjal í gær sem ég ætla að selja í Etsy búðinni. Það gekk töluvert betur að prjóna það en fyrsta sjalið en samt tókst mér að gera "villu", þ.e. ég gerði YO útaukningu í stað M1 við miðjulykkjuna en þá myndast svona göt sitthvoru megin við hana. Engin skelfileg villa en mér finnst hitt eiginlega fallegra.
Ég breytti kantinum aftur eins og á fyrsta sjalinu og studdist við þetta sjal hérna. Ég næ affellingunni samt ekki jafn fallegri, veit ekki af hverju.
Í þetta skiptið notaði ég líka annað garn. Hvíti liturinn er Abuelita baby merino og hitt er Kunstgarn sem skiptir sjálft litum. Ég er alveg sérstaklega ánægð með hvernig rendurnar koma út og finnst þessir litir æði.


Sjalið er aðeins minna heldur en það sem ég gerði úr Kambarni þannig að næst mun ég íhuga að fjölga röndunum til að stækka það því ég mun pottþétt gera annað úr þessu garni handa mér, finnst það svo mjúkt og osom.


Núna verð ég hins vegar að hvíla sjalaprjónið í bili og einbeita mér að lopapeysum sem búið er að panta hjá mér.

Monday, October 7, 2013

Bylgjuteppi úr Kambgarni

Teppaæðið mitt heldur áfram og í gær kláraði ég bylgjuteppi handa litlu dóttur minni.


Teppið er heklað úr tvöföldu Kambgarni og mér finnst það koma ótrúlega vel út, þ.e. að hafa garnið tvöfalt. Ég hugsa að það verði svipað þykkt og léttlopi eða jafnvel örlítið þykkara. Teppið mitt samt þæfðist pínkupons í þvotti og það er kannski þess vegna sem mér finnst það þykkara en ella.
En ég elska litina í Kambgarninu, sérstaklega þessa gráu og bleiku, og langar eiginlega að gera fleiri teppi með allskonar litasamsetningum.


Uppskriftin er svona frekar beisik og hana má finna ókeypis hér á þessu bloggi.Ég held að í teppið hafi farið tæplega ein dokka af hverjum gráum og bleikum lit en 7 eða 8 af hvítum. Endanleg stærð eftir þvott (og mögulega örlitla þæfingu) er ca. 65x95 cm.


Ég er rosa ánægð með útkomuna og hlakka til að byrja að nota teppið fyrir dömuna. Ég veit allavega að það er mjög hlýtt og gott því mér var mjög heitt af því að hafa það í kjöltunni á meðan ég heklaði.Friday, October 4, 2013

Myndagleði

Ég skrapp með systur mína út í náttúruna í gær og tók nokkrar myndir fyrir Etsy búðina mína og Ravelry. Elska að geta sameinað tvö áhugamál :)
Monday, September 23, 2013

Eilífðargrifflur

Ég kláraði þessar grifflur í dag ... LOKSINS!!!


Án gríns þá er búið að taka mig tvö ár að nenna að klára. Kannski vegna þess að þær eru prjónaðar með 5 litum af Kambgarni á prjóna númer 1,75 ... 


Uppskriftina er að finna hér.

Ég er rosalega ánægð með útkomuna og mig hefur lengi langað til að eiga grifflur úr einhverju öðru en lopa en hef bara ekki nennt að gera svona fínlegar ... sem er kannski ekki skrítið þegar ég tek mér tvö ár í það :P

Sunday, September 15, 2013

Neon lopapeysan ... aftur

Nú þegar dóttir mín er komin í heiminn og bumban í rénun get ég loksins byrjað að nota neon lopapeysuna sem ég prjónaði fyrr í sumar. Reyndar hef ég enn ekki haft tilefni til þess en skellti mér í hana og tók almennilega mynd.


Ég vildi samt að það væri ekki svona erfitt að ná neon litnum á mynd. Hann einhvernvegin verður aldrei jafn flottur og þegar maður sér hann með berum augum.

Nú þarf ég bara að ákveða hvort mér finnst hún of stutt eða ekki. Var eitthvað að vesenast með þetta þegar ég prjónaði búkinn en gat auðvitað ekki mátað. Finnst svona eins og hún mætti vera 3-5 cm síðari þannig að ef ég nenni þá geri ég þetta hér aftur.

En hvað sem síddinni líður þá er ég rosalega ánægð með peysuna og hlakka til að fara í henni upp um fjöll og fyrnindi.

Tuesday, September 10, 2013

Ný lopapeysa

Var að klára þessa lopapeysu úr tvöföldum plötulopa. Munstrið er mín eigin aðlögun á einhverju gömlu munstri sem ég man ekki hvað heitir ... Loki eða eitthvað.
Hún varð aðeins víðari en ég ætlaði að hafa hana en það er kannski allt í lagi því hún er ætluð í sölu og þarf ekkert að passa á mig :p
Mér finnst sauðalitirnir alltaf fallegastir í lopapeysur og hef sérstakt dálæti á þessum grábrúna tóni.

Friday, September 6, 2013

Betri prjónadeild

Ég fór í Kringluna í dag og sá mér til mikillar gleði að Hagkaup er búið að stækka og bæta prjónadeildina sína. Nú er meira úrval og meira pláss. Sá ekki betur en að nú fengist garn frá bæði Sandnes og Gjestal auk lopans.

Þótt ég sé meira fyrir að versla í sérvöruverslunum þá er þetta ánægjuleg breyting og myndir segja meira en mörg orð :)


Friday, August 30, 2013

Nýr fjölskyldumeðlimur

Ég hef ekki mikið prjónað eða heklað undanfarna daga enda upptekin við að sinna nýjasta fjölskyldumeðlimnum sem kom í heiminn síðastliðið mánudagskvöld. Litla daman lét sjá sig um tíuleytið eftir dagslanga dvöl á fæðingardeildinni. Hún er auðvitað fullkomin og öllum heilsast vel.


Ég hef aldrei farið í gegnum gangsetningu áður og verð að segja að ég hafði það ansi huggulegt yfir daginn og nýtti tímann m.a. til að hekla. Er að gera enn eitt teppið úr tvöföldu Kambgarni eftir þessari uppskrift.


Ég var síðan orðin ansi spennt að sjá hvernig heimferðarsettið myndi passa á dömuna en ég tók smá áhættu með peysuna og minnkaði minnstu stærðina um ca. 20%. Það kom svo í ljós að hún passaði fínt nema ég hefði kannski mátt hafa hettuna oggulítið lengri. Húfan og sokkarnir voru pörfekt.


Nú taka við "rólegheita" dagar heima og það fer að koma að því að maður tekur upp prjónana/nálina á milli gjafa ;)