Monday, September 23, 2013

Eilífðargrifflur

Ég kláraði þessar grifflur í dag ... LOKSINS!!!


Án gríns þá er búið að taka mig tvö ár að nenna að klára. Kannski vegna þess að þær eru prjónaðar með 5 litum af Kambgarni á prjóna númer 1,75 ... 


Uppskriftina er að finna hér.

Ég er rosalega ánægð með útkomuna og mig hefur lengi langað til að eiga grifflur úr einhverju öðru en lopa en hef bara ekki nennt að gera svona fínlegar ... sem er kannski ekki skrítið þegar ég tek mér tvö ár í það :P

Sunday, September 15, 2013

Neon lopapeysan ... aftur

Nú þegar dóttir mín er komin í heiminn og bumban í rénun get ég loksins byrjað að nota neon lopapeysuna sem ég prjónaði fyrr í sumar. Reyndar hef ég enn ekki haft tilefni til þess en skellti mér í hana og tók almennilega mynd.


Ég vildi samt að það væri ekki svona erfitt að ná neon litnum á mynd. Hann einhvernvegin verður aldrei jafn flottur og þegar maður sér hann með berum augum.

Nú þarf ég bara að ákveða hvort mér finnst hún of stutt eða ekki. Var eitthvað að vesenast með þetta þegar ég prjónaði búkinn en gat auðvitað ekki mátað. Finnst svona eins og hún mætti vera 3-5 cm síðari þannig að ef ég nenni þá geri ég þetta hér aftur.

En hvað sem síddinni líður þá er ég rosalega ánægð með peysuna og hlakka til að fara í henni upp um fjöll og fyrnindi.

Tuesday, September 10, 2013

Ný lopapeysa

Var að klára þessa lopapeysu úr tvöföldum plötulopa. Munstrið er mín eigin aðlögun á einhverju gömlu munstri sem ég man ekki hvað heitir ... Loki eða eitthvað.
Hún varð aðeins víðari en ég ætlaði að hafa hana en það er kannski allt í lagi því hún er ætluð í sölu og þarf ekkert að passa á mig :p
Mér finnst sauðalitirnir alltaf fallegastir í lopapeysur og hef sérstakt dálæti á þessum grábrúna tóni.

Friday, September 6, 2013

Betri prjónadeild

Ég fór í Kringluna í dag og sá mér til mikillar gleði að Hagkaup er búið að stækka og bæta prjónadeildina sína. Nú er meira úrval og meira pláss. Sá ekki betur en að nú fengist garn frá bæði Sandnes og Gjestal auk lopans.

Þótt ég sé meira fyrir að versla í sérvöruverslunum þá er þetta ánægjuleg breyting og myndir segja meira en mörg orð :)