Ég kláraði þessa peysu um daginn. Uppskriftin er úr Lopi 32 og heitir Laufey en eins og svo oft þá þurfti ég samt að breyta uppskriftinni. Í fyrsta lagi notaði ég tvöfaldan plötulopa frekar en Álafosslopa. Fannst hinn síðarnefndi bara aðeins of þykkur og grófur og átti auk þess (og á) svo mikið af plötulopa. Fíngerðari lopi gerir það einnig að verkum að minnsta stærðin er þrengri en gefið er upp í uppskriftinni og þannig vildi ég hafa það þar sem mér finnst upprunalega peysan vera svolítið mikið víð. Síðan lengdi ég ermarnar og tók aðeins inn í mittinu. Í ljósi þess að ég er ólétt þá passaði einstaklega vel að hafa bara krækjur efst en ég hugsa að ég muni halda því áfram þannig eftir að bumban hverfur.
Það gekk ekki þrautalaust að prjóna peysuna. Uppskriftin er ekki flókin eða seingerð en þegar ég var loksins búin að sameina ermar og búk og prjóna ca. hálft axlastykkið fattaði ég að ég hafði gleymt að gera úrtökur í mittinu, öðru megin. Það gerði það að verkum að það voru auka lykkjur og mittið auðvitað allt skakkt. Fullkomnunaráráttan mín leyfði ekki annað en að axlastykkið og megnið af búknum yrðu rakin upp og prjónuð aftur mér til MIKILLAR óánægju. Ég var ekki í neitt sérstaklega góðu skapi á meðan ég prjónaði aftur. Hinsvegar er ég ofboðslega ánægð að ég lét mig hafa það og nota peysuna mikið. Hún er fullkomin inni- og útipeysa á svölum sumardögum.