Wednesday, January 26, 2011

Feeling blue ...


Ég er í bláu stuði þessa dagana. Þótt grænn sé alltaf uppáhalds liturinn minn þá fylgir blár fast á eftir. Enda fer blár mér eiginlega betur.
Um daginn frétti ég að kóngablái plötulopinn væri kominn aftur. Ég er búin að bíða og vona svo lengi að ég rauk út í búð og keypti mér kíló. Þegar ég var síðan sest niður og byrjuð að prjóna kjól úr honum fattaði ég að ég var á sama tíma með sjal í gangi úr bláum tónum, blágrænan skokk og nýbúin að kaupa kóngablátt garn í vettlinga og húfu. Sem sagt blátt blátt blátt þessa dagana hjá mér. Kannski er það vetrartíminn.

Monday, January 10, 2011

Lopastrákarnir mínir

Ég byrjaði á peysum handa strákunum mínum í sumar og nennti loksins að klára seinni peysuna núna nýlega. Sem betur fer vildi sá eldri ekki hettu og það flýtti helling fyrir mér.



Uppskriftin er úr lopablaði og heitir Þíða (minnir mig).

Mér finnst voða gaman að prjóna lopapeysur á þá og leika mér með liti. Peysurnar eru s.s. alveg eins nema ég víxla litunum. Gráa peysan er með brúnu munstri og brúna peysan með gráu. Nú er bara spurning um að gera kannski eina hvíta á litla skottið.

Regnbogasjal

Mig hefur svo lengi langað að prjóna úr svona regnbogagarni, ég vissi bara aldrei hvað. Revontuli sjalið liggur einhvernvegin alltaf beinast við en eins og ég hef áður nefnt þá langar mig ekki að gera annað svoleiðis strax.
Svo sá ég mynd á Ravelry af Gail (a.k.a Nightsongs) úr Kauni regnbogagarni og það var alveg hrikalega flott. Ég reyndar vildi frekar nota Evilla Artyarn en það er sami framleiðandi og varla það mikill munur.

Svo byrjaði ég að prjóna ....

Ég er svo mikill fanatíkus að ég gat ekki sætt mig við það hvernig litaskiptin komu út þannig að ég rakti upp aftur og aftur og aftur og aftur! Allur Gamlársdagur og megnið af Nýársdegi fóru í að prjóna þetta sjal aftur og aftur þar til ég var ánægð með litaskiptin. En ég er líka verulega ánægð með útkomuna og á nóg af garni eftir :)


Saturday, January 1, 2011

Aeolian sjal

Eftir allt jólagjafaprjónið þá ákvað ég að skella í eitt sjal handa mér. Ég var heillengi að velja hvaða sjal ég myndi gera því ég er rosalega sérvitur á það hvaða sjöl þola svona litaskipt garn. Venjulega finnst mér Revontuli best fyrir þannig garn því það "vinnur með" litaskiptunum en mig langaði bara ekki í annað svoleiðis. Fyrir valinu varð því Aeolian.


Þetta er annað Aeolian sjalið sem ég geri. Uppskriftin er af Ravelry en ég nota alternative narrow edging (líka á Ravelry) því mér finnst það fallegra. Garnið sem ég notaði heitir Evilla Artyarn 8/2 og fæst í Handprjón.is búðinni í Hafnafirði. Prjónastærðin var 5 sem mér finnst eiginlega aðeins of stórt. Næst mun ég eflaust nota 4,5 því ég prjóna í lausari kanntinum. En það kom samt alls ekki að sök þannig séð að nota prjóna nr. 5 því sjalið varð stórt og fínt.
Ég er þrælánægð með sjalið og finnst litirnir alveg yndislegir.