Tuesday, March 20, 2012

Hringtrefill - uppskrift

Það hafa rosalega margar haft samband við mig síðustu vikur og beðið um uppskrift af hringtreflinum. Hingað til hef ég bara átt enska útgáfu en ætla núna að pósta henni á íslensku. Gjössovell:


Stærð:
Ein stærð, ca. 120 cm að lengd.
Efni:
Abuelita Merino Worsted:                2 hespur 
eða
Fyberspates Scrumtious DK:         2 hespur

Prjónar 6-8 mm 

Notið frekar stærri prjóna heldur en minni, sérstaklega ef prjónað er fast. Þannig verður trefillinn léttari í sér.

Prjónfesta:

Skiptir ekki máli.

Aðferð:

Trefillinn er prjónaður fram og til baka með klukkuprjóni og svo saumaður saman í lokin.

Klukkuprjón:

Fitjið upp 40-46 lykkjur eftir því hvað trefillinn á að vera breiður.

Umferð 1: *Sláið bandinu upp á prjóninn, takið eina óprjónaða brugðið, prjónið 1 slétt* - Endurtakið *-* út umferð.

Umferð 2: *Sláið bandinu upp á prjóninn, takið eina óprjónaða brugðið,  prjónið 2 saman (þ.e. 1 lykkju og bandið sem var slegið upp á í fyrri umferð)* - Endurtakið *-* út umferð.

Endurtakið umferð 2 þar til ca. 50 cm eru eftir af garni. Notið garnið til að sauma saman endana tvo svo úr verði hringur. Einnig er hægt að lykkja þá saman.

 Góða skemmtun :)

Bleikur trefill úr Abuelita Merino Worsted

Saturday, January 21, 2012

Að búa til prjónamunstur

Mér finnst ótrúlega gaman að búa til mín eigin lopapeysumunstur. Reyndar heppnast þau misvel en eftir að ég fór að nota www.prjonamunstur.is þá gengur það aðeins betur. Mæli með þessari síðu fyrir þær sem langar að prófa og fikta.

(Höfundur er auðvitað ég)

Blogg á ensku

Ég ákvað að búa til annað blogg á ensku: www.knitwearbyunneva.blogspot.com ;)

...

Wednesday, January 18, 2012

Styrkur


Ég held að Lopi 29 sé uppáhalds lopablaðið mitt. Ég er búin að gera svo margt úr því. Núna var ég loksins að klára peysukjólinn Styrkur sem ég byrjaði á í maí á síðasta ári. Ég ákvað reyndar að nota ekki tvöfaldan plötulopa heldur einfaldan og Isager alpaca 1 sem er örfínt eins og einband. Flíkin er því bæði léttari og mýkri en ef maður notar tvöfaldan plötulopa. Reyndar lenti ég í smá veseni með prjónfestuna en ég held að það komi varla að sök núna því kjóllinn passar bara fínt að því undanskildu að ermarnar eru aðeins of langar eftir þvott.
En þetta er þrælskemmtileg flík að prjóna, fljótleg og falleg.

Monday, January 16, 2012

Mín útgáfa af Stórstirni


Ég hef alltaf verið ofboðslega hrifin af peysunni Stórstirni úr Lopi 29. Held að það hafi verið fyrsta peysan sem ég gerði úr því blaði. En núna ákvað ég að breyta henni svolítið og gera hana kvenlegri. Peysan kemur bara í karlastærðum og er gerð úr Bulky-lopa. Ég notaði hins vegar þrefaldan plötulopa á prjóna nr 8 með prjónfestuna 11 l á 10 cm. Sniðið skáldaði ég síðan bara til að passa á mig og ákvað að sleppa hvíta kraganum til að gera peysuna aðeins meira "stylish". Mér finnst hún hafa heppnast vel og það er vel þegið að eiga svona hlýja peysu í kuldanum sem hefur herjað á okkur síðustu vikur.

Friday, January 13, 2012

Nýtt vesti

Ég kláraði nýlega vesti úr Létt-lopa og Evilla plötulopa. Litirnir í því finnst mér voðalega fallegir en myndi aldrei ganga í þeim sjálf samt enda prjónaði ég vestið til að selja á Etsy. Í grunninn notaði ég uppskriftina af Vormorgunn en munstrið er af barnapeysunni Él.


Ég er ofsalega hrifin af Evilla plötulopanum og finnst passa mjög vel að nota tvöfaldan svoleiðis með Létt-lopa. Hann er nefnilega aðeins fíngerðari en plötulopinn okkar.

Thursday, January 12, 2012

Etsy

Þessa dagana er ég á fullu að vinna í Etsy búðinni minni. Mér finnst Etsy alveg ótrúlega skemmtileg síða og margt fallegt til sölu þar. Hvet þær sem ekki þekkja síðuna til að skoða. Fullt af skemmtilegu og fallegu handverki, þ.a.m. eru nokkrir Íslendingar að selja sniðuga hluti eins og þessa hér:

http://www.etsy.com/shop/SnowStitched

og þessa:

http://www.etsy.com/shop/elinella

Áhugasamir geta síðan skoðað búðina mína hérna:

www.etsy.com/shop/unneva. ;)