Friday, August 30, 2013

Nýr fjölskyldumeðlimur

Ég hef ekki mikið prjónað eða heklað undanfarna daga enda upptekin við að sinna nýjasta fjölskyldumeðlimnum sem kom í heiminn síðastliðið mánudagskvöld. Litla daman lét sjá sig um tíuleytið eftir dagslanga dvöl á fæðingardeildinni. Hún er auðvitað fullkomin og öllum heilsast vel.


Ég hef aldrei farið í gegnum gangsetningu áður og verð að segja að ég hafði það ansi huggulegt yfir daginn og nýtti tímann m.a. til að hekla. Er að gera enn eitt teppið úr tvöföldu Kambgarni eftir þessari uppskrift.


Ég var síðan orðin ansi spennt að sjá hvernig heimferðarsettið myndi passa á dömuna en ég tók smá áhættu með peysuna og minnkaði minnstu stærðina um ca. 20%. Það kom svo í ljós að hún passaði fínt nema ég hefði kannski mátt hafa hettuna oggulítið lengri. Húfan og sokkarnir voru pörfekt.


Nú taka við "rólegheita" dagar heima og það fer að koma að því að maður tekur upp prjónana/nálina á milli gjafa ;)

Saturday, August 24, 2013

Að ganga jafnóðum frá endum í hekli - myndband

Mér finnst ekkert sérstaklega gaman að ganga frá endum, sérstaklega ekki ef þeir eru margir eins og vill gerast þegar maður heklar röndótt stykki. Eins og margir þá fann ég fljótlega upp á því að hekla bara yfir endana en komst svo að því að bæði er það ekki alltaf hægt, t.d. ef maður gerir gatamunstur, og að oft vill endinn sjást eða jafnvel fara á flakk ef maður er með sleipt garn. Þess vegna fór ég að ganga frá endum eins og ég sýni í nýjasta myndbandinu mínu hér fyrir neðan.


Aðferðin er ekki endilega tímasparandi þannig séð en hún sparar manni þó að sitja lengi við það eitt að ganga frá endum. Hún sýnir líka bara hvernig ég geng frá endum í lok umferðar en það er alveg hægt að nota hana á enda í upphafi ef maður nennir. Hins vegar tek ég þann enda yfirleitt og hekla með fyrstu loftlykkju en geng almennilega frá í lokin. Stundum hekla ég líka bara með fyrstu lykkjunum/stuðlunum og þarf þá ekkert að ganga frá. Gallinn við það er bara að þá getur stykkið orðið þykkt þar sem ég hekla endann með þannig að ég met það bara hverju sinni.


Vonandi hefur einhver gagn og/eða gaman af þessu myndbandi og öll komment eru vel þegin. Á næstunni ætla ég síðan að gera annað myndband sem sýnir hvernig ég geng jafnóðum frá endum í prjóni og trúið mér, það var byltingarkennt fyrir endahatara eins og mig þegar ég fann upp á því :P

Monday, August 19, 2013

Bleikt draumasjal og húfa í stíl

Ég kláraði sjal í gær og gaf systur minni í afmælisgjöf. Það er úr Kambgarni og prjónað á prjóna nr. 4.


Sjalið heitir Dream Stripes á Ravelry og er frekar einfalt og skemmtilegt að prjóna. Ég reyndar breytti blúndukantinum aðeins og hermdi á eftir þessu hér.


Fyrst þegar ég byrjaði þá las ég eitthvað vitlaust og tók ekki eftir að maður ætti að auka út um tvær lykkjur í brugnu umferðinni. Ég var því búin að prjóna helminginn af röndunum þegar ég þurfti að rekja upp ... ekki gaman. En þetta gekk samt mun hraðar eftir að ég var farin að gera þetta rétt. Þessar auka útaukningar gera það líka að verkum að "armarnir" á sjalinu verða lengri og ég fíla það í tætlur. Gæti alveg hugsað mér að gera annað svona sjal fyrir sjálfa mig í öðrum litum.


Systir mín elskar bleikt og að hafa hlutina í stíl. Ég gerði því hjálmhúfu í stíl við sjalið handa nýfæddri dóttur hennar úr afgöngunum. Er alveg viss um að þær verða smörtustu mæðgurnar í bænum ;)



Wednesday, August 14, 2013

Að lykkja saman

Þegar ég byrjaði að prjóna lopapeysur kunni ég ekki að lykkja saman og lítil hjálp var í móður minni (sem þá var mín aðal þekkingarlind) því hún prjónar lykkjurnar alltaf saman. Mér hins vegar finnst það ekki nógu falleg aðferð og lærði að lykkja saman með aðstoð internetsins og lopablaðanna.

Í fyrstu gekk það ekki svo vel. Ég sneri lykkjunum öfugt, fór vitlaust inn í þær og var alltaf að missa niður lykkjur. En æfingin skapar jú meistarann og nú tel ég mig vera búna að fullkomna aðferðina. Ég vil endilega deila henni með ykkur og hef því búið til myndband sem sýnir hvað ég geri.

Vinnan við að lykkja saman hefst hjá mér þegar ég fitja upp. ... Nú hugsa eflaust margir að ég sé ekki með réttu ráði en mér finnst þetta vera algjört lykilatriði til þess að koma í veg fyrir lausar lykkjur og göt. 
Það sem ég geri er að bæta 4 lykkjum við heildarlykkjuföldann, t.d. 2 lykkjur á búk og 1 á hvorri ermi. Ef það er munstur neðst á bol og ermum þá bætti ég lykkjunum bara við eftir það til að rugla ekki munstrið.
Síðan þegar ég sameina búk og ermar þá prjóna ég saman síðustu lykkju af búk og fyrstu lykkju af ermi og svo aftur síðustu lykkju af ermi og fyrstu lykkju af búk (við báðar ermar auðvitað). Þannig fækka ég þessum 4 lykkjum aftur og enda með réttan lykkjufjölda. Ef einhverjum finnst þetta of flókið eða mikið vesen má líka sleppa að bæta lykkjunum við í upphafi, prjóna lykkjurnar saman og auka aftur út um 4 lykkjur í næstu umferð. Einnig má auðvitað bara sleppa þessu alfarið en þá meikar partur af myndbandinu mínu ekki alveg jafn mikið sens ;)


Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni og öll komment eru vel þegin :)

Thursday, August 8, 2013

Teppaklár og rendur

Ég kláraði ungbarnateppið um helgina. Er rosalega ánægð með það. Fyrst var ég samt eitthvað að svekkja mig á því að það væri svo þétt í sér og minna heldur en ég hafði ætlað. En eftir þvott og góða strekkingu varð það eiginlega fullkomið. Nú langar mig helst að skella í annað og annað og annað og ...



Það sem mér finnst erfiðast ... en samt eiginlega ógeðslega skemmtilegt við að gera svona röndótt teppi er að setja saman liti og ákveða röðina á þeim. Ég get ekki fyrir mitt litla líf gert bara eitthvað. Hver einasta rönd og hver einasti litur verða að vera útpæld og í "réttri" röð. Meira að segja þegar ég ákveð að vera villt og gera bara einhvernvegin þá nota ég random stripe generator til að geta séð og valið nákvæmlega hvernig lokaútkoman verður. Til dæmis notaði ég þetta mikið þegar ég heklaði röndóttu Kríurnar:



Ég er hins vegar ekki komin á þann stað að geta bara valið einhverja liti saman og ég efast um að það gerist. Litir eru svo mikil ástríða hjá mér að ég get ekki sleppt því að pæla í þeim.

Thursday, August 1, 2013

Teppi, teppi og fleiri teppi.

Ég er búin að vera með teppi á heilanum núna í margar vikur ... hef ekki klárað nema eitt, frekar lítið dúlluteppi en byrjað á nokkrum og hugsað um all mörg. Væntanlega er það ófædd dóttir mín sem er kveikjan að þessu æði en ég gerði aldrei nein teppi handa eldri börnunum mínum og þetta er víst síðasti sénsinn.

Teppið sem ég kláraði fyrr í sumar er eftir uppskriftinni Flowers in the snow og má finna uppskriftina á þessu bloggi. Það er frekar lítið enda ætlað sem bílstólateppi. Ég held að þetta sé með flottari dúlluteppauppskriftum sem ég veit um og frekar gaman og fljótlegt að hekla.




Ég notaði bómullargarn frá King Cole sem fæst í Rúmfatalagernum. Verð að segja að ég er mjög ánægð með það því litirnir eru ofboðslega fallegir og garnið mjúkt og kósí.

Núna er ég svo með annað teppi á nálinni. Það er eftir uppskriftinni Vintage crocheted blanket nema ég geri það svolítið mikið minna. Er að vona að það endi ca. 60x80 cm eða aðeins stærra. Veit ekki hversu mikið svona hekl stækkar við þvott.




Ég ætlaði fyrst að gera svona hefðbundið bylgju/zigzag teppi en svo fannst mér þetta bæði flottara og ekki eins einhæft að hekla. Er eiginlega bara þrælánægð með hvernig það er að koma út.


Garnið sem ég nota er blanda af Dale Falk og Trysil Superwash. Hið síðarnefnda (hvítur og dekkri bleikur) átti ég á lager en Dale Falk er á útsölu í A4 (á ca. 450 kr.) um þessar mundir og ég nýtti mér það til að kaupa nokkra fallega liti.

Síðan er ég byrjuð á og meira en hálfnuð með ugluteppi, sófateppi úr lopa og dúlluteppi. Fékk bara leið á þeim öllum (sérstaklega ugluteppinu) og liggur í raun ekkert á að klára :P