Thursday, August 1, 2013

Teppi, teppi og fleiri teppi.

Ég er búin að vera með teppi á heilanum núna í margar vikur ... hef ekki klárað nema eitt, frekar lítið dúlluteppi en byrjað á nokkrum og hugsað um all mörg. Væntanlega er það ófædd dóttir mín sem er kveikjan að þessu æði en ég gerði aldrei nein teppi handa eldri börnunum mínum og þetta er víst síðasti sénsinn.

Teppið sem ég kláraði fyrr í sumar er eftir uppskriftinni Flowers in the snow og má finna uppskriftina á þessu bloggi. Það er frekar lítið enda ætlað sem bílstólateppi. Ég held að þetta sé með flottari dúlluteppauppskriftum sem ég veit um og frekar gaman og fljótlegt að hekla.




Ég notaði bómullargarn frá King Cole sem fæst í Rúmfatalagernum. Verð að segja að ég er mjög ánægð með það því litirnir eru ofboðslega fallegir og garnið mjúkt og kósí.

Núna er ég svo með annað teppi á nálinni. Það er eftir uppskriftinni Vintage crocheted blanket nema ég geri það svolítið mikið minna. Er að vona að það endi ca. 60x80 cm eða aðeins stærra. Veit ekki hversu mikið svona hekl stækkar við þvott.




Ég ætlaði fyrst að gera svona hefðbundið bylgju/zigzag teppi en svo fannst mér þetta bæði flottara og ekki eins einhæft að hekla. Er eiginlega bara þrælánægð með hvernig það er að koma út.


Garnið sem ég nota er blanda af Dale Falk og Trysil Superwash. Hið síðarnefnda (hvítur og dekkri bleikur) átti ég á lager en Dale Falk er á útsölu í A4 (á ca. 450 kr.) um þessar mundir og ég nýtti mér það til að kaupa nokkra fallega liti.

Síðan er ég byrjuð á og meira en hálfnuð með ugluteppi, sófateppi úr lopa og dúlluteppi. Fékk bara leið á þeim öllum (sérstaklega ugluteppinu) og liggur í raun ekkert á að klára :P

No comments:

Post a Comment