Saturday, August 24, 2013

Að ganga jafnóðum frá endum í hekli - myndband

Mér finnst ekkert sérstaklega gaman að ganga frá endum, sérstaklega ekki ef þeir eru margir eins og vill gerast þegar maður heklar röndótt stykki. Eins og margir þá fann ég fljótlega upp á því að hekla bara yfir endana en komst svo að því að bæði er það ekki alltaf hægt, t.d. ef maður gerir gatamunstur, og að oft vill endinn sjást eða jafnvel fara á flakk ef maður er með sleipt garn. Þess vegna fór ég að ganga frá endum eins og ég sýni í nýjasta myndbandinu mínu hér fyrir neðan.


Aðferðin er ekki endilega tímasparandi þannig séð en hún sparar manni þó að sitja lengi við það eitt að ganga frá endum. Hún sýnir líka bara hvernig ég geng frá endum í lok umferðar en það er alveg hægt að nota hana á enda í upphafi ef maður nennir. Hins vegar tek ég þann enda yfirleitt og hekla með fyrstu loftlykkju en geng almennilega frá í lokin. Stundum hekla ég líka bara með fyrstu lykkjunum/stuðlunum og þarf þá ekkert að ganga frá. Gallinn við það er bara að þá getur stykkið orðið þykkt þar sem ég hekla endann með þannig að ég met það bara hverju sinni.


Vonandi hefur einhver gagn og/eða gaman af þessu myndbandi og öll komment eru vel þegin. Á næstunni ætla ég síðan að gera annað myndband sem sýnir hvernig ég geng jafnóðum frá endum í prjóni og trúið mér, það var byltingarkennt fyrir endahatara eins og mig þegar ég fann upp á því :P

No comments:

Post a Comment