Ég kláraði ungbarnateppið um helgina. Er rosalega ánægð með það. Fyrst var ég samt eitthvað að svekkja mig á því að það væri svo þétt í sér og minna heldur en ég hafði ætlað. En eftir þvott og góða strekkingu varð það eiginlega fullkomið. Nú langar mig helst að skella í annað og annað og annað og ...
Það sem mér finnst erfiðast ... en samt eiginlega ógeðslega skemmtilegt við að gera svona röndótt teppi er að setja saman liti og ákveða röðina á þeim. Ég get ekki fyrir mitt litla líf gert bara eitthvað. Hver einasta rönd og hver einasti litur verða að vera útpæld og í "réttri" röð. Meira að segja þegar ég ákveð að vera villt og gera bara einhvernvegin þá nota ég random stripe generator til að geta séð og valið nákvæmlega hvernig lokaútkoman verður. Til dæmis notaði ég þetta mikið þegar ég heklaði röndóttu Kríurnar:
Ég er hins vegar ekki komin á þann stað að geta bara valið einhverja liti saman og ég efast um að það gerist. Litir eru svo mikil ástríða hjá mér að ég get ekki sleppt því að pæla í þeim.
Thursday, August 8, 2013
Thursday, August 1, 2013
Teppi, teppi og fleiri teppi.
Ég er búin að vera með teppi á heilanum núna í margar vikur ... hef ekki klárað nema eitt, frekar lítið dúlluteppi en byrjað á nokkrum og hugsað um all mörg. Væntanlega er það ófædd dóttir mín sem er kveikjan að þessu æði en ég gerði aldrei nein teppi handa eldri börnunum mínum og þetta er víst síðasti sénsinn.
Teppið sem ég kláraði fyrr í sumar er eftir uppskriftinni Flowers in the snow og má finna uppskriftina á þessu bloggi. Það er frekar lítið enda ætlað sem bílstólateppi. Ég held að þetta sé með flottari dúlluteppauppskriftum sem ég veit um og frekar gaman og fljótlegt að hekla.
Ég notaði bómullargarn frá King Cole sem fæst í Rúmfatalagernum. Verð að segja að ég er mjög ánægð með það því litirnir eru ofboðslega fallegir og garnið mjúkt og kósí.
Núna er ég svo með annað teppi á nálinni. Það er eftir uppskriftinni Vintage crocheted blanket nema ég geri það svolítið mikið minna. Er að vona að það endi ca. 60x80 cm eða aðeins stærra. Veit ekki hversu mikið svona hekl stækkar við þvott.
Ég ætlaði fyrst að gera svona hefðbundið bylgju/zigzag teppi en svo fannst mér þetta bæði flottara og ekki eins einhæft að hekla. Er eiginlega bara þrælánægð með hvernig það er að koma út.
Garnið sem ég nota er blanda af Dale Falk og Trysil Superwash. Hið síðarnefnda (hvítur og dekkri bleikur) átti ég á lager en Dale Falk er á útsölu í A4 (á ca. 450 kr.) um þessar mundir og ég nýtti mér það til að kaupa nokkra fallega liti.
Síðan er ég byrjuð á og meira en hálfnuð með ugluteppi, sófateppi úr lopa og dúlluteppi. Fékk bara leið á þeim öllum (sérstaklega ugluteppinu) og liggur í raun ekkert á að klára :P
Wednesday, July 31, 2013
Lopapeysan Laufey
Ég kláraði þessa peysu um daginn. Uppskriftin er úr Lopi 32 og heitir Laufey en eins og svo oft þá þurfti ég samt að breyta uppskriftinni. Í fyrsta lagi notaði ég tvöfaldan plötulopa frekar en Álafosslopa. Fannst hinn síðarnefndi bara aðeins of þykkur og grófur og átti auk þess (og á) svo mikið af plötulopa. Fíngerðari lopi gerir það einnig að verkum að minnsta stærðin er þrengri en gefið er upp í uppskriftinni og þannig vildi ég hafa það þar sem mér finnst upprunalega peysan vera svolítið mikið víð. Síðan lengdi ég ermarnar og tók aðeins inn í mittinu. Í ljósi þess að ég er ólétt þá passaði einstaklega vel að hafa bara krækjur efst en ég hugsa að ég muni halda því áfram þannig eftir að bumban hverfur.
Það gekk ekki þrautalaust að prjóna peysuna. Uppskriftin er ekki flókin eða seingerð en þegar ég var loksins búin að sameina ermar og búk og prjóna ca. hálft axlastykkið fattaði ég að ég hafði gleymt að gera úrtökur í mittinu, öðru megin. Það gerði það að verkum að það voru auka lykkjur og mittið auðvitað allt skakkt. Fullkomnunaráráttan mín leyfði ekki annað en að axlastykkið og megnið af búknum yrðu rakin upp og prjónuð aftur mér til MIKILLAR óánægju. Ég var ekki í neitt sérstaklega góðu skapi á meðan ég prjónaði aftur. Hinsvegar er ég ofboðslega ánægð að ég lét mig hafa það og nota peysuna mikið. Hún er fullkomin inni- og útipeysa á svölum sumardögum.
Wednesday, July 24, 2013
Bestu ungbarnasokkarnir - uppskrift
Sólin er loksins komin að gleðja íbúa höfuðborgarsvæðisins og nýti ég mér það til hins ítrasta. Á meðan ég sit úti á svölum dunda ég mér við að prjóna ýmislegt smálegt á ófædda krílið eins og sokka. Bestu sokkar sem ég get hugsað mér á ungabörn eru svokallaðir spíralsokkar. Þeir eru ekki með neinum hæl og vaxa þar af leiðandi eiginlega með barninu. Að auki finnst mér þeir haldast mjög vel á.
Ég læt hér fylgja með uppskrift af spíralsokkum á nýfædd kríli. Þeir eru frekar litlir en hægt er að stækka þá annað hvort með því að bæta við 4 lykkjum (eða 8, 12, 16 o.s.frv.) eða með því að nota stærri prjóna og grófara garn. Svo má auðvitað prjóna þá eins langa og hver vill.
Í sokkana þarf:
Baby garn (eða eitthvað fingering weight garn) og prjóna nr. 2,5. Prjónfesta skiptir eiginlega ekki máli.
Fitjið upp 28 lykkjur og tengið í hring.
Umferðir 1-6: 2 l slétt og 2 l brugðið út umferð.
Umferðir 7-10: 1 l brugðið, *2 l slétt og 2 l brugðið*, *-*endurtekið út umferð, 1 l brugðið.
Umferðir 11-14: 2 l brugðið og 2 l slétt út umferð.
Umferðir 15-18: 1 l slétt, *2 l brugðið og 2 l slétt*, *-*endurtekið út umferð, 1 l slétt.
Umferðir 19-22: 2 l slétt og 2 l brugðið út umferð.
Umferðir 7-22 eru síðan endurteknar þar til sokkurinn mælist ca. 10 cm (eða eins langur og hver vill). Best er að enda eftir umf. 12 (en það skiptir ekki öllu máli samt).
Þá er prjónað þannig:
Takið út með því að prjóna brugnu lykkjurnar brugðið saman út umferð.
Prjónið sléttar lykkjur sléttar og brugnar lykkjur brugnar út umferð.
Takið út með því að prjóna sléttu lykkjurnar slétt saman út umferð.
Prjónið sléttar lykkjur sléttar og brugnar lykkjur brugnar út umferð.
Prjónið tvær lykkjur saman út umferð.
Dragið bandið í gegnum eftirstandandi lykkjur og gangið frá endum.
Njótið :)
Friday, July 19, 2013
Nightsongs sjal #4
Ég held að ég fái aldrei leið á að prjóna sjalið Gail (aka Nightsongs). Er búin að gera fjögur handa sjálfri mér og nokkur í viðbót til að selja eða gefa.
Nýjasta eintakið er jafnframt það fíngerðasta og með flestum endurtekningum. Ég notaði Madelinetosh tosh merino light í þessum líka ótrúlega fallega lit, Nassau blue. Myndirnar sýna eiginlega ekki hvað liturinn er gordjöss ... þið verðið bara að trúa mér ;)
Í sjalið fór rúmlega ein hespa eða um 125g þannig að ég á alveg slatta af garninu afgangs sem ég veit ekki hvað ég ætla að gera við. Ég notaði prjóna nr. 4,5 og er sjalið mjög létt og fínlegt, ekta svona sumar/inni/sparisjal en hingað til hef ég verið meira í að gera þykk og gróf sjöl sem henta betur í að halda hita á manni úti á köldum vetrardögum.
Tuesday, July 16, 2013
Heklað sjal
Þegar Handprjón.is fékk fyrstu sendinguna af Madelinetosh tosh merino ligth þá var ég ekki lengi að mæta á svæðið og kaupa eins og eina hespu. Það tók mig hinsvegar nokkra mánuði að gera eitthvað úr henni. Ég gerði nefnilega þau mistök (svona fyrir minn smekk allavega) að kaupa lit sem er mjög "lifandi", þ.e. litaskiptin eru frekar áberandi. Ég var því lengi að finna rétta verkefnið en ég er nefnilega algjörlega á því að svona "lifandi" garn henti ekki í hvaða verkefni sem er. Ég endaði á þessu fallega sjali sem ég fann á Ravelry.
Sjalið heitir Over the Willamette og má finna hér. Ég notaði frekar stóra heklunál miðað við garn eða 4,5 en fór annars alveg eftir uppskriftinni. Sjalið er gríðarlega fljótgert og tók ekki nema einn dag eða svo að klára en er samt alveg sæmilega stórt. Ein hespa af Madelinetosh tosh merino light passar akkúrat.
Þótt ég hafi í fyrstu verið óánægð með litinn þá fannst mér hann lagast við þvott og sjalið líta miklu betur út.
Monday, July 15, 2013
Óléttupeysa
Mig langaði að gera mér óléttupeysu, þ.e. opna peysu sem hentar vel að skella yfir sig án þess að hafa áhyggjur af bumbunni. Fann þessa sniðugu og einföldu uppskrift hér á Ravelry.
Síðan átti ég fullt af yndislegu Debbie Bliss Cashmerino DK, sem var búið að liggja aðeins of lengi á lager, og fannst tilvalið að nota það. Áferðin á því, allavega þessum tiltekna lit, er pínu svona "metallic" og ég fíla það geðveikt.
Ég er mjög ánægð með útkomuna og væri alveg til í að gera aðra. Þá myndi ég samt hafa hana örlítið meira "lokaða" að framan.
Saturday, July 13, 2013
Neon lopapeysa
Hvernig er annað hægt en að elska nýja neon lopann frá Ístex? Ég allavega féll strax fyrir gula litnum og ákvað að gera mér peysu sem tekið væri eftir.
Mér fannst ekki nægja að hafa gula litinn bara í munstrinu þannig að ég hafði hann sem aðallit og valdi einfalt og stílhreint munstur til að hafa með, s.s. Var úr Lopi 29. Gallinn við það er bara að sú peysa er gerð úr léttlopa og því þurfti ég aðeins að reikna og aðlaga að Álafosslopanum. En ég er nokkuð ánægð með útkomuna þótt peysan verði ekki notuð fyrr en óléttubumban er horfin ;)
Thursday, July 11, 2013
Lopapeysuæði
Ég hef verið illa haldin af bloggaralægð undanfarnar vikur og mánuði ... en sjáum til hvort það breytist ekki núna.
Í sumarfríinu hef ég verið iðin við lopapeysugerð. Fékk einskonar æði og setti mér markmið um að klára tíu peysur til að selja fyrir haustið. Er búin með þrjár og hálfa þannig að ég veit ekki alveg hvernig fer. En hér er afraksturinn hingað til:
Þær eru allar prjónaðar úr tvöföldum plötulopa en litaskipta garnið er Randalína úr Handprjón.is.
Tuesday, March 20, 2012
Hringtrefill - uppskrift
Það hafa rosalega margar haft samband við mig síðustu vikur og beðið um uppskrift af hringtreflinum. Hingað til hef ég bara átt enska útgáfu en ætla núna að pósta henni á íslensku. Gjössovell:
Prjónfesta:
Aðferð:
Stærð:
Ein stærð, ca. 120 cm að lengd.
Efni:
Abuelita Merino Worsted: 2 hespur
eða
Fyberspates Scrumtious DK: 2 hespur
Prjónar 6-8 mm
Notið frekar stærri prjóna heldur en minni, sérstaklega ef prjónað er fast. Þannig verður trefillinn léttari í sér.
Prjónfesta:
Skiptir ekki máli.
Aðferð:
Trefillinn er prjónaður fram og til baka með klukkuprjóni og svo saumaður saman í lokin.
Klukkuprjón:
Fitjið upp 40-46 lykkjur eftir því hvað trefillinn á að vera breiður.
Umferð 1: *Sláið bandinu upp á prjóninn, takið eina óprjónaða brugðið, prjónið 1 slétt* - Endurtakið *-* út umferð.
Umferð 2: *Sláið bandinu upp á prjóninn, takið eina óprjónaða brugðið, prjónið 2 saman (þ.e. 1 lykkju og bandið sem var slegið upp á í fyrri umferð)* - Endurtakið *-* út umferð.
Endurtakið umferð 2 þar til ca. 50 cm eru eftir af garni. Notið garnið til að sauma saman endana tvo svo úr verði hringur. Einnig er hægt að lykkja þá saman.
Góða skemmtun :)
![]() |
Bleikur trefill úr Abuelita Merino Worsted |
Subscribe to:
Posts (Atom)