Tuesday, December 14, 2010

Bleikt Haruni sjal


Systir mín elskar bleikt og meira bleikt. Alltaf þegar ég sé fallegt bleikt garn þá hugsa ég um hana. Ég var þess vegna löngu búin að ákveða að gefa henni eitthvað bleikt prjónað í afmælisgjöf. Reyndar þá er það sú hugmynd sem startaði öllu þessu sjalaprjóni hjá mér.

Ég var s.s. að skoða mig um á Ravelry og rakst á þetta hrikalega fallega sjal, Haruni. Ég hugsaði um leið að þetta væri eitthvað fyrir systur mína og setti uppskriftina í favorites. Þá var ég búin að ákveða að nota bleikt einband því ég veit að henni finnst sá litur ofboðslega flottur. Ég hinsvegar lagði ekki alveg í uppskriftina strax.

Svo liðu dagarnir og ég fann alltaf fleiri og fleiri flott sjöl og byrjaði á að prófa Springtime Bandit og svo næsta og næsta koll af kolli. Ég gerði sjalið hennar ekki fyrr en núna í nóvember þegar ég var búin að gera tvö önnur Haruni.
Reyndar hætti ég við einbandið og skipti yfir í Dale Falk. Það var bæði vegna þess að ég vildi ekki svona fíngert garn og vegna þess að hún var búin að benda á litinn í Falk garninu (í allt öðru samhengi samt). Þetta garn kom mér líka mjög skemmtilega á óvart sem garn í sjöl.

Ég vona síðan bara að bleika systir mín sé jafn ánægð með útkomuna og ég :)


Systuhúfa

Frá því að ég fæddist (held ég örugglega) hafa barnabörn og langömmubörn hennar ömmu fengið heklaðar húfur frá konu sem var að vinna hjá "fjölskyldufyrirtækinu". Þetta eru æðislegar húfur og aðeins of sætar. Strákarnir mínir fengu eina bláa og dóttir mín núna síðast eina bleika.

Eftir að ég datt í þennan svakalega handavinnugír þá ákvað ég að ég þyrfti að læra að gera svona húfur og fékk mömmu til að hafa samband við konuna. Það var minnsta mál í heimi og lítið annað að gera en setjast niður og prófa. Það tók mig reyndar nokkrar tilraunir að átta mig á uppskriftinni en um leið og það var komið þá var þetta ekkert mál og mjög gaman.

Það sem einkennir þessar húfur er þetta skemmtilega hnútahekl og stjarnan ofan á að ógleymdum stórum dúski. Ég elska húfur með risastórum dúskum :)

Hér skartar dóttir mín húfunni. Hún var ekki í miklu myndastuði þennan daginn en ég læt þetta duga. Garnið sem ég notaði er Viking Balder og nálin var nr 9 minnir mig.


Wednesday, December 1, 2010

Tuesday, November 16, 2010

Nýtt sjal


Ég kláraði nýtt sjal í gær. Þetta er annað Nightsongs sjalið sem ég geri og ég er bara nokkuð ánægð með það. Ég blandaði saman einbandi og Drops alpaca þannig að það er mjúkt og svona skemmtilega yrjótt á litinn.

Monday, November 15, 2010

Tvær litlar húfur

Ég gerði tvær húfur handa Svanhvíti Önnu um daginn. Önnur er búin að vera á dagskránni í marga mánuði, var búin að kaupa garn og allt. Hina gerði ég upp úr mér eftir hugmynd sem ég var búin að ganga með í kollinum í svolítinn tíma.


Mýsluhúfa úr Storkinum: Ég sá þessa prjónaða í Storkinum fyrir löngu, löngu síðan. Keypti garn og uppskrift sem hvarf síðan bara ofan í skúffu. Þegar ég loksins gerði hana fattaði ég að þetta er nánast bara eins og venjuleg hjálmhúfa. Maður sleppir bara spíssinu á kollinum. Svo fannst mér eyrun í uppskriftinni ekki koma nógu vel út og mér finnst agalega leiðinlegt að prjóna mörg lítil stykki til að prjóna saman. Ég gerði þess vegna ný eyru upp úr mér og er bara nokkuð sátt.


Álfahúfa: Þessi er bara gerð upp úr mér eftir að hafa skoðað hinar og þessar húfur á www.ravelry.com. Mig langaði aðalega að nota litaskipt garn í rendur og finnst það hafa komið bara svona fínt út.

Sunday, October 17, 2010

Tvö sjöl

Sjalaæðið mitt ætlar engan enda að taka ...

198 yds. of Heaven úr Eco Duo Alpaca frá www.handprjon.is:



Revontuli nr. 2 úr Fame Trend:

Fína lopapeysan mín

Ég er búin að vera að dunda við þessa í allt sumar. Ég kláraði búkinn og ermarnar ansi hratt en nennti svo ekki að gera munstrið nema af og til. Aðalega vegna þessa að ég teiknaði það upp sjálf út frá Lopi 156 af www.istex.is og tókst að hafa allt of margar umferðir með þrem litum. Það er voða fallegt en ósköp seinlegt.
Ég blandaði saman einföldum plötulopa og einbandi nema grái liturinn er með silfurþræði í staðin fyrir einband.



Barnalopapeysa úr léttlopa

Kláraði loksins að þvo og mynda þessa peysu sem ég gerði á yngri strákinn. Uppskriftin heitir Þíða og er úr einhverju lopablaðinu. Það er svo önnur í vinnslu á eldri strákinn. Ég er bara eitthvað voða upptekin af öllum öðrum verkefnum þessa dagana.

Haruni 1 og 2

Ég gerði tvö Haruni sjöl nýlega. Annað er úr léttlopa og hitt úr yndislegu silky merino garni frá Malabrigo.



Friday, September 24, 2010

Nýtt æði

Ég er komin með æði fyrir sjölum. Er búin að gera þrjú núna í september og klára það fjórða vonandi í dag. Allar uppskriftirnar eru ókeypis af Ravelry.

Gail (aka Nightsongs) úr einföldum plötulopa og einbandi:




Springtime Bandit úr einföldum plötulopa og einbandi:




Revontuli úr Evilla garni:




Fjórða sjalið mitt er svo Haruni af Ravelry. Mér finnst það eitt fallegasta sjal sem ég hef séð og get ekki beðið eftir því að klára.

Wednesday, August 4, 2010

Misheppnuð peysa lagfærð

Ég tók mig til og lagfærði misheppnaða peysu í kvöld.

Þegar ég prjónaði hana ætlaði ég mér að gera short rows neðst aftan á og að framan yfir brjóstin. Þetta hugsaði ég til að hún myndi sitja betur. NEMA mér tókst einhvernvegin að gera allar short rows á sömu hliðinni s.s. ekki að aftan og framan. Þegar peysan var tilbúin var hún þess vegna miklu síðari að framan en aftan.

Ég varð auðvitað rosalega fúl og henti peysunni inn í skáp ... þar til núna.

Ég tók mig s.s. til og klippti hana í tvennt í mittinu, sneri neðra stykkinu við og lykkjaði saman. Það tókst ótrúlega vel og peysan smellpassar núna.

Hér eru myndir af ferlinu:











Friday, June 18, 2010

Short row hæll

Hérna eru mjög einfaldar leiðbeiningar að short row hæl:

http://kaityvr.wordpress.com/2007/05/28/the-easiest-way-to-do-a-short-row-heel/

Ég lærði upphaflega að snúa og vefja bandinu utan um lykkjuna en ég ekki frá því að þetta komi bara betur út.

Tuesday, June 15, 2010

Röndótt án samskeyta

Ég veit ekki hvort prjónakonur kunna þetta almennt en mér finnst agalega sniðugt að geta gert röndótta flík án þess að samskeytin sjáist mikið.
Þetta er mjög einfalt trix. Þegar maður skiptir um lit prjónar maður fyrstu umferðina af nýja litnum eins og venjulega. Svo þegar maður kemur að fyrstu lykkjunni í annari umferð þá tekur maður fyrstu lykkjuna óprjónaða og prjónar síðan áfram eins og ekkert hafi í skorist. Auðvitað sést alltaf smá en ekki nærri því eins mikið og þegar maður sleppir þessu.

Wednesday, May 26, 2010

Sumarlitir

Ég fór í Hagkaup um daginn að gera eitthvað allt annað en kaupa garn enda á ég miklu meira en nóg af því. Hinsvegar stóðst ég ekki mátið þegar ég sá svo æðislega fallega og sumarlega liti í léttlopanum. Ég hef alveg séð þá áður en þarna var búið að stilla þeim svo fallega upp hlið við hlið að ég gat ekki annað en keypt eina af hverjum. Í þokkabót eru þeir yrjóttir sem mér finnst svo æðislegt.
Allavega þá ákvað ég að prjóna strax úr þeim til að réttlæta kaupin. Með því að bæta við smá brúnum afgöngum varð útkoman þessi:





Uppskriftirnar af vettlingunum eru af póstkortum sem fást hér og þar og húfan er afbökun á mynstri úr Lopi 2 eða Cintamani mynstrinu víðfræga.

Sumarhúfa


Mig vantaði sólhatt fyrir litla barnið mitt og fannst ekki annað hægt en að prjóna slíkan sjálf. Uppskriftina fann ég á www.ravelry.com undir Summer baby hat. Þetta er frekar einföld uppskrift og stærðina aðlagar maður að höfðustærð barnsins og garninu. Ég notaði Drops Safran sem ég keypti fyrir lifandis löngu og er alveg þrælánægð með útkomuna.

Monday, May 10, 2010

Ullarsápa



Keypti þetta í Yggdrasil um dagin og er voða ánægð. Ég prófaði að nota smá svona Wool Care í staðin fyrir hárnæringu og það kemur vel út. Finnst nefnilega stundum eins og hárnæring geri lopapeysurnar of mjúkar, þær verða að hafa karakter.

Saturday, May 8, 2010

Crochet steeking - Opin lopapeysa en engin saumavél



Ég rakst á þessa aðferð við að gera opnar peysur um daginn og fannst algjör snilld. Ég hata að sauma kantinn í saumavél, finnst alltaf eins og hann verði stífur og ómögulegur.

Allavega þá beið ég ekki boðanna og skellti í eina opna lopapeysu.

Það fyrsta sem maður þarf að hugsa um er að gera ekki tvær brugnar upp bolinn heldur 3-7 sléttar í staðin. Það verður að vera oddatala og ég myndi frekar velja 5-9 heldur en 3. Sem sagt, ef uppskriftin segir að fitja eigi upp 155 lykkjur fyrir bolinn þá myndi maður t.d. fitja upp 160 og þá væru 5 aukalykkjur sem væru þá í upphafi/lok umferðar og myndu tákna miðjuna framaná (bara alveg eins og þegar maður gerir tvær brugnar).

Síðan prjónar maður bara eftir uppskrift eins og venjulega. Það eina sem maður þarf að passa er að í munstrinu verður maður að prjóna aukjalykkjurnar þannig að þær verði röndóttar þ.e. ein lykkja í lit A og svo ein í lit B o.s.frv. (sést betur á myndunum). Þetta er gert til þess að engir langir spottar liggi bakvið lykkjurnar þar sem maður klippir.

Svo þegar búið er að prjóna, ganga frá endum og það allt þá byrja skemmtilegheitin:



Fyrst finnur maður miðjulykkjuna af aukalykkjunum og heklar fastapinna í helminginn af henni og helminginn af næstu lykkju alla leiðina niður (eða upp). Síðan gerir maður það sama við hinn helminginn og lykkjuna hinumegin. Ég mæli reyndar með því að skoða www.eunnyjang.com/knit/2006/01/the_steeking_chronicles_part_i.html
til að fá betri og nákvæmari útskýringu á þessu.



Ég notaði léttlopa og litla nál til að hekla en peysan er úr þreföldum plötulopa. Ég las einhverstaðar að það væri betra að nota fínna garn ef maður getur. Maður verður bara að passa að garnið geti þæfst.



Þegar maður er búinn að hekla báðu megin þá er bara klippt á milli.



Að lokum brettir maður kantinn inn og heklar annan kant eða saumar rennilás beint í. Það er út af þessu sem það er betra að hafa fleiri en 3 aukalykkjur. Þá verður breiðari kantur inni í peysunni sem mér finnst bæði fallegra og öruggara upp á að ekkert rakni upp.



Peysan mín hefur ekki enn raknað upp. Ég setti rennilás í hana og finnst þetta bara æði.